143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:28]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir með málshefjanda, það er áhyggjuefni ef það horfir til meiri einokunar hérna. Ég held að það verði ekki tilfellið, en það er vissulega fákeppni hér á markaði. Þó að það sé rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að það geti verið samkeppni á fákeppnismarkaði er samt ástæða til að hafa varann á.

Í fyrirspurninni er talað um að hækkun á gengi krónunnar skili sér seint og illa til neytenda en hækkun á krónunni fari út í verðlagið. Þetta er rétt, þetta er þróun sem við höfum séð en það sem ég hef eiginlega áhyggjur af er að ef það er samkeppni á markaði eiga fyrirtækin ekki að komast upp með að hækka vöruverð. Eftir að Verðlagsstofnun var lögð niður eru neytendur í raun verðlagseftirlitið. Það eru neytendur sem verða að velja og hafna. Ef þeim finnst vara of dýr eiga þeir ekki að kaupa hana. Markaðurinn skilur ekki eitthvert nöldur og tuð — og svo kaupir neytandinn vöruna. Hann skilur bara að varan er keypt, seljandinn getur selt hana á þessu verði. Við neytendur verðum líka að vera mjög passasöm.

Það sem gerir okkur erfitt um vik eru stöðugar verðbreytingar, gjaldmiðillinn okkar sem skoppar upp og niður. Við fáum ekki þessa verðvitund sem maður fær ef maður býr í útlöndum. Ég þekki það frá Danmörku. Þar hefur maður mjög góða tilfinningu fyrir því hvað vörurnar kosta. Það gerist ekki hér vegna verðbólgunnar. Það veldur vissu kæruleysi hjá okkur sem neytendum. Það er bara þannig. Ég held að við séum eina landið þar sem eru stanslaust verðkannanir. Ég man aldrei eftir slíku frá Danmörku, verðkönnunum í blöðum. Fólk var bara með verðlag (Forseti hringir.) nokkurn veginn á hreinu.