143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. frummælanda, Þorsteini Sæmundssyni, fyrir mjög innihaldsríka og í rauninni mergjaða yfirferð á málinu á stuttum tíma. Hann dró upp mjög bjagaða mynd eða öllu heldur mynd af bjöguðum smásölumarkaði á Íslandi, sumpart vegna aukinnar tilhneigingar til fákeppni og jafnvel einokunar, og nefndi dæmi úr skýrslum þar sem fram hafi komið mismunun stórra og smárra, hvernig stóru söluaðilarnir mismunuðu í þágu stóru dreifingaraðilanna og að þessi mismunun gæti numið fjórðungi, að lítilli verslun hefði verið boðið 24% verri kjör en stærstu aðilunum. Það er til umhugsunar.

Hv. þingmaður nefndi líka að það væri mótsagnakennt að horfa á hagnaðartölur stóru smásölufyrirtækjanna, hann nefndi 5 milljarða, og að það væri undarlegt að sjá þessa sömu aðila síðan bjóða upp á vörulækkun sem næmi 2,5% á 600 tegundir og þá ekki síst með hliðsjón af hagstæðri gengisþróun söluaðilunum í hag. Hv. þingmaður kallaði eigendur þessara fyrirtækja til ábyrgðar, þar á meðal lífeyrissjóðina. Ég vil taka undir það allt.

Í þessari umræðu hafa allir verið samir við sig. Hæstv. fjármálaráðherra bar blak af stóru fyrirtækjunum og sagði að fákeppni þyrfti ekki endilega að stríða gegn samkeppni. Ég er nú ekki viss um að það sé alveg rétt og kemur það ekki heim og saman við þau dæmi sem hér voru reidd fram. Samfylkingin var náttúrlega söm við sig varðandi krónuna, það á að vera allra meina bót að taka upp evru og leggja af krónu. En ég vil upplýsa Samfylkinguna og landsmenn um að kaffið í Norður-Finnlandi er sennilega (Forseti hringir.) fjórum sinnum dýrara á veitingahúsum en á Sikiley (Forseti hringir.) og þó nota báðar þjóðirnar evru.