143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:42]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur hefur starfað í nokkra áratugi við innflutning og smásölu á Íslandi og það er nokkuð merkileg iðja. Erlendis er gjarnan talað um smásala og þá sem standa í því bixi sem frekar litlausa karaktera. Þetta er ekki talið mjög spennandi verkefni, en á Íslandi er það æsispennandi. Það gerist afskaplega sjaldan á Íslandi að vara sé pöntuð erlendis frá, síðan verðlögð, seld og á endanum greidd á sama degi eða á sama gengi. Það þýðir að sá sem stundar verslunarrekstur og innflutning á Íslandi er alltaf að kaupa X marga lottómiða með þegar hann stundar sinn rekstur.

Þær viðmiðunartölur sem maður hefur heyrt frá nágrannalöndum okkar, eins og t.d. Englandi eða Norðurlöndunum, yfir hvað þykir ásættanlegt yfirmark eða útkoma úr rekstri í dagvörumarkaði þætti eiginlega brjálæði hér. Menn tala um að ásættanlegt sé að fá 2% út úr rekstri á matvörumarkaði en á Íslandi eru 2% rétt til þess að dekka gengisvarnir fram að hádegi. Þegar við erum í því ástandi að allur reksturinn, allt kerfið er lotterí verðum við samdauna ástandinu. Og hverju munar það hvort við tökum sénsinn á því að reikningurinn á vörunni sem við seljum í dag hækki um þriðjung þegar við borgum hann eða því hvort við höfum opið tveimur, þremur klukkutímum lengur eða yfir nóttina? Það er pínulítil viðbótaráhætta miðað við þá áhættu sem við eigum við með íslensku krónuna og gengisóstöðugleikann sem við höfum þekkt hérna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)