143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

opinber innkaup.

220. mál
[16:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um opinber innkaup sem fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB, eins og hún heitir, um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála. Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra skuli mæla nánar fyrir um innkaup á sviði varnar- og öryggismála, sem falla undir tilskipunina, í reglugerð.

Ákvæði tilskipunarinnar miða að því að samræma evrópska löggjöf um innkaup á samningum á sviði varnar- og öryggismála. Þá er tilskipuninni ætlað að stuðla að aukinni samkeppni, koma á skilvirkum evrópskum markaði fyrir varnar- og öryggisbúnað og stuðla að auknu gagnsæi í innkaupum á þessu sviði. Í tilskipuninni er kveðið á um samræmingu á reglum er varða útboð á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála, en undir þessa málaflokka falla landamæravarsla, landhelgisgæsla, löggæsla og hættustjórnun. Eftir sem áður munu samningar sem krefjast sérstaklega strangrar þagnarskyldu vera undanþegnir útboðsskyldu ef það er réttlætanlegt á grundvelli almannaöryggis eða nauðsynlegt til að gæta mikilvægra öryggishagsmuna ríkisins.

Ákvæði um innkaup á sviði varnar- og öryggismála eru að mestu hliðstæð ákvæðum laga um opinber innkaup. Þó kveður tilskipunin á um að samningskaup, að undangenginni auglýsingu, skuli vera það innkaupaferli sem að jafnaði skal nota við innkaup á varnar- og öryggisbúnaði en almenna reglan í lögum um opinber innkaup er almennt opið útboð. Viðmiðunarfjárhæðir vegna innkaupa sem falla undir þessa tilskipun eru sambærilegar og hjá stofnunum sem falla undir reglugerð nr. 755/2007, um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, þ.e. 66 millj. kr. vegna vöru- og þjónustusamninga og 828 millj. kr. vegna verksamninga.

Við undirbúning frumvarpsins var efni þess kynnt fyrir flestum þeim aðilum sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta á þessu sviði og leitað athugasemda frá þeim.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.