143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef skynjað umræðuna í þessum þingsal og víða úti í þjóðfélaginu þannig að eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna og efnahagsmálanna sé að afnema gjaldeyrishöft og þá þarf auðvitað í leiðinni, og það er ófrávíkjanlegur partur af því verkefni, að semja við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna og losa erlendar krónueignir. Það hefur almennt verið álitið stórt og yfirgripsmikið verkefni og fyrir síðustu kosningar man ég ekki betur en að það hafi verið víðtækur samhljómur í máli stjórnmálamanna og ekki síst formanna núverandi stjórnarflokka að það ætti að ganga til samninga við erlenda kröfuhafa og reyna að nýta til dæmis svigrúm sem gæti skapast í slíkum samningum til ýmissa mikilvægra verkefna hér innan lands og þetta væri ófrávíkjanlegur liður í því að afnema gjaldeyrishöft.

Síðan komu kosningar og svo kom ríkisstjórn og engar samningaviðræður við kröfuhafa hafa farið fram. Engar. Nú berast fregnir af því, núna í morgunsárið, frá Bloomberg að hæstv. forsætisráðherra lýsi því yfir að ekki standi til að semja neitt við kröfuhafa, það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að fara í viðræður við kröfuhafa.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er hann sammála hæstv. forsætisráðherra í því? Stendur ekki til að ræða við kröfuhafa? Hvernig á að afnema gjaldeyrishöftin? Hvernig á að leysa þetta vandamál sem er gríðarleg krónueign erlendra kröfuhafa á Íslandi?