143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú er unnið hörðum höndum að gerð áætlunar um það hvernig við komumst á næsta stað í ferlinu. Þar er ekki bara horft á vandann sem er til kominn vegna þrotabúanna heldur líka aflandskrónuvandann og aðra endurfjármögnunarþörf sem er í hagkerfinu.

Í því sambandi mun mögulega reyna á stjórnvaldsaðgerðir. Hv. þingmaður nefnir hér skattlagningu sem hefur ávallt verið inni í myndinni og kæmi til álita með einum eða öðrum hætti, t.d. vegna krónueigna sem vilja leita út úr hagkerfinu en eru utan þrotabúanna. Það reynir líka á ákveðið raunsæi innan slitastjórnanna og það virðist vera mikill vandi fyrir slitastjórnir að samhæfa vilja mörg þúsund kröfuhafa. Við lesum núna síðustu daga um að einstaka kröfuhafar séu orðnir langþreyttir, (Forseti hringir.) en þeir eiga ekkert meiri rétt en næsti kröfuhafi. Þeir eru í hópi þúsunda kröfuhafa (Forseti hringir.) í þrotabúunum þremur. Stjórnvöld eiga fyrst (Forseti hringir.) og fremst samskipti við slitastjórnirnar sjálfar.