143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

kjarasamningar og verðlagshækkanir.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að ekki skyldu fleiri aðilar að kjarasamningunum staðfesta þá í atkvæðagreiðslum undanfarna daga. Við skulum halda því til haga að þarna voru aðilar að semja sín á milli á vinnumarkaði, á almenna markaðnum. Ríkið var ekki aðili að þeim kjarasamningum. Hins vegar kom ríkið fram með margvíslegar aðgerðir sem áttu að greiða brautina fyrir gerð kjarasamninga.

Ég nefni það að undið var ofan af skerðingum fyrri ríkisstjórnar í bótakerfinu. Ég nefni einnig að undið var ofan af skattahækkunum fyrri ríkisstjórnar fyrir alla þá sem höfðu 250 þús. kr. eða meira með því að við hækkuðum annars vegar tekjuviðmiðið í lægsta þrepinu og lækkuðum hins vegar tekjuskattinn í miðþrepinu. Ég nefni það líka að ríkisstjórnin hélt fjölda opinberra gjalda óbreyttum. Ríkisstjórnin lýsti yfir að þau gjöld, sem að jafnaði hækka upp til samræmis við verðlag um áramót með sérstöku verðlagsuppfærslufrumvarpi, mundu ekki hækka nema sem nemur í mesta lagi verðbólguviðmiði Seðlabankans, ekki bara á þessu ári heldur líka næstu tvö ár.

Það er því fjölmargt fyrir utan skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar sem ríkisstjórnin gerði, ýmist óbeðin eða til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Niðurstaðan varð síðan sú að samningar voru undirritaðir m.a. með vísun í þær aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til á síðasta degi þingsins fyrir jól.

Þess vegna vísa ég því alfarið á bug að það hafi skort eitthvað á af hálfu ríkisins. Ríkisstjórnin gekk miklum mun lengra, tel ég, en flestir höfðu gert ráð fyrir með því að koma strax á sínu fyrsta ári með frumvarp sem var beinlínis til þess fallið að auka kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna.