143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

endurgreiðsluhlutfall lána hjá LÍN.

[10:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hvað varðar þann þátt fyrirspurnarinnar sem snýr að því hlutfalli sem er í raun og veru styrkur úr ríkissjóði til námsmanna er talan 47%. Það er sú tala sem er miðað við þegar horft er til námslánanna árið 2012. Að meðaltali er hér um að ræða 37% styrk. Það er því ekki þannig, eins og stundum hefur verið haldið fram í opinberri umræðu, að námslánakerfið á Íslandi sé þannig að það sé enginn styrkur til námsmanna heldur séu þau greidd að fullu til baka. Það er ekki svo. Meðaltalsstyrkurinn er þessi sem ég nefndi áðan, en það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, þetta kerfi er í raun og veru þá þannig uppbyggt að það er ógagnsætt og engar skýrar reglur eða stefnumótun eða -mörkun er um það hverjir hljóta styrkinn önnur en sú sem hv. þingmaður vék í raun að í fyrirspurn sinni, sem er að eftir því sem menn taka hærri námslán, því líklegra er að þau verði ekki greidd til baka.

Annað er reyndar mjög áhugavert sem kemur fram í skýrslunni, þ.e. að mjög há námslán hafa aukist, námslán sem eru yfir 7,5 milljónir. Sá stabbi hefur stækkað umtalsvert og eins líka að töluverð aukning hefur orðið í námslánunum, þau hafa vaxið mikið á undanförnum árum og koma þar reyndar nokkrar skýringar að. Í sjálfu sér er þó ekkert sem bendir til þess að það muni hægja eitthvað sérstaklega á því alveg á næstunni.

Eitt er auðvitað það sem við höfum rætt áður í þingsalnum sem er spurningin um námsframvindu. Með því að námsframvindan var færð niður í 60% varð það að sjálfsögðu til útgjaldaauka fyrir sjóðinn. Ég hef lagt upp með þá stefnumörkun að skynsamlegt sé að fara aftur í það hlutfall sem var hér árum saman og er svona meginreglan á Norðurlöndunum.