143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

viðvera íslenskra ráðherra á vetrarólympíuleikunum.

[11:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé rétt að við notfærum okkur þá umræðu sem orðið hefur hér um hvort íslenskir ráðamenn eigi að sækja Ólympíuleikana eða ekki.

Flokkssystir mín, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sagði að deila mætti um þá ákvörðun. Í mínum huga er það alls ekki svo. Ég tel að íslensk stjórnvöld eigi að taka afstöðu til stjórnmálanna í Rússlandi og sýna hana í verki, ég tel að íslenskir stjórnmálamenn eigi ekki vera þar. Ég vil bara ekki sjá þá þar í mínu nafni.

Ég er hins vegar á því að íþróttahreyfingin geti haft þar aðra skoðun og sótt Ólympíuleikana og að Ólympíuleikarnir séu haldnir, en það er einmitt oft munurinn á stjórnmálamönnum og samtökum og einhverju sem er gert að stjórnmálamenn sýna afstöðu sína með því að vera ekki á svona leikum.