143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

viðvera íslenskra ráðherra á vetrarólympíuleikunum.

[11:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Í ljósi þeirrar þróunar sem hér er að verða á fundarstjórn þakka ég fyrir að fá einnig tækifæri til að koma hingað upp. Ég vil ítreka það að Samtökin '78, mannréttindasamtök hinsegin fólks, krefjast þess að íslensk stjórnvöld lýsi opinberlega yfir andstöðu og ótta við þá þróun sem á sér stað í Rússlandi núna og að þau sendi ekki sína æðstu ráðamenn á Ólympíuleikana. Mér finnst það alvarlegt að íslenskir ráðamenn hunsi kröfu virtra mannréttindasamtaka á Íslandi sem lýsa yfir ótta við vaxandi ofsóknir gegn samkynhneigðu fólki og hinsegin fólki, ekki bara í Rússlandi heldur víða um heim. Það er tímabært að við, Ísland, tökum okkur stöðu með afgerandi hætti í þeirri þróun sem á sér stað.