143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Framhaldsskólinn gegnir afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu, er staður sem sinnir menntun og uppeldi ungmennanna okkar, býr þau undir nám og störf og er vettvangur félagslífs, samskipta, sköpunar og tækifæra. Virkni og þátttaka ungmenna á þessum árum leggur grunninn að lýðræðislegu samfélagi og þróun þess inn í langa framtíð. Þetta er mótunartími í lífi sérhvers ungmennis þar sem fyrstu skrefin eru oft stigin á leið til sjálfstæðis og fullorðinsára.

Framhaldsskólinn okkar hefur um árabil búið við miklar þrengingar, niðurskurð og aðhald en staðið sig í raun ótrúlega vel við erfiðar aðstæður. Kennarar og skólastjórnendur hafa lagt á sig aukna vinnu, stærri hópa og meira álag en búið við skertan kaupmátt og margháttuð högg hrunsins eins og raunar samfélagið allt.

En nú er nóg komið og raunar fyrir samþykkt síðustu fjárlaga. Við erum löngu komin að sársaukamörkum því að framhaldsskólinn snýst ekki aðeins um kennslustofuna og miðlun námsefnis heldur ekki síður um þróunarstarf, greiningu, framvindu og fjölbreytni. Skóli er alltaf samfélag.

Nýr ráðherra sýndist strax á spilin að einhverju leyti við ríkisstjórnarskiptin og olli það vonbrigðum þegar ekki var staðinn vörður um skólastigið og framhaldsskólanum enn ætlað að taka á sig skerðingar.

Nú hefur ráðherra kynnt að unnið sé að hvítbók um málefni framhaldsskólans. Hvert er markmið þeirrar vinnu, grundvöllur og erindi? Hvað er undir?

Við víðtæka stefnumótun eins og ráðherra hefur boðað er brýnt að fyrir liggi hverjir eigi aðkomu, hversu opið ferlið sé, kynning á því og loks úrvinnsla þeirra hugmynda og athugasemda sem fram kunna að koma. Því er spurt: Hverjir taka þátt í þessari stefnumótun? Eru fulltrúar Kennarasambands Íslands, skólameistara og menntavísindasviðs Háskóla Íslands við borðið? Taka nemendur þátt? Taka foreldrar þátt? Hvernig verður kynningu og umfjöllun um hvítbókina háttað? Er aðkoma skólafólks að vinnunni tryggð? Og loks: Hvernig sér ráðherrann fyrir sér framhald vinnunnar og næstu skref?

Um nokkra hríð hefur verið rætt um mögulega styttingu náms til stúdentsprófs en sérstakar áhyggjur vekur að megináhersla þeirrar umræðu frá ríkisstjórnarskiptum hefur verið á rekstrarforsendur og sparnað en umræðu um inntak námsins og raunverulegar faglegar forsendur hugmyndanna skortir. Ekki verður við það unað að umræðan haldi áfram á þessum nótum þegar heilt skólastig er undir og þá skólastig sem er í tilteknum vanda þar sem brotthvarf er umtalsvert. Greining á ástæðum brotthvarfsins, gæði og inntak framhaldsskólanámsins hljóta að vera tengd viðfangsefni og í því ljósi afar varasamt að stefna að styttingu námsins á rekstrarlegum grunni einum saman. Í framhaldi af þessu er rétt að gera til þess kröfur að ráðherrann geri hér grein fyrir hugmyndum sínum um styttingu náms til stúdentsprófs. Er hann sammála flokkssystur sinni sem áður sat í stóli menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um að þar skipti sveigjanleikinn mestu og að hver geti tekið námið á sínum hraða, eins og var raunar undirstrikað í lögunum frá 2008, og að fjölbreytni eigi að vera sem mest í skólastarfinu eða á að ganga fram með valdi og setja hámark á einingafjölda? Eru list- og verkgreinar í hættu? Þarf ekki einmitt að efla þær? Verður einsleitni látin ráða för, einföldun og rýrnun á skólastarfinu og dregið úr vali?

Að lokum langar mig að víkja að því sem í raun skiptir mestu máli á næstu vikum og mánuðum; kjörum framhaldsskólakennara. Launakjör kennara hafa dregist aftur úr sambærilegum stéttum og að svo miklum mun að við það verður engan veginn unað. Það hlýtur að teljast mikilvægasti einstaki þátturinn sem lýtur að stöðu framhaldsskólans að gera leiðréttingu á launakjörunum. Til að tryggja að sá mannauður sem framhaldsskólinn hefur yfir að ráða eigi kost á starfsþróun og þrífist á vettvangi skólastigsins þarf að vera raunveruleg virðing fyrir hendi sem ætti að endurspeglast í kjörum sem standast samanburð við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá hinu opinbera.

Kjarasamningar kennara eru nú fram undan. Þá þurfa áherslur ráðherra gagnvart kennurum í tengslum við þá kjarasamninga að liggja fyrir. Telur hann laun framhaldsskólakennara viðunandi ef miðað er við sambærilegar stéttir? Hvernig telur ráðherra að unnt sé með sem bestum hætti að efla innihald og gæði íslenska framhaldsskólans þannig að byggt sé á raunverulegum styrkleikum hans og miklum mannauði sem hann hefur yfir að búa?

Virðulegur forseti. Eins og áður sagði er verkefni og hlutverk framhaldsskólans ærið í íslensku samfélagi, ekki síst á umbrotatímum. Því verður að ríkja sátt og eindrægni í málefnum hans og hlutverk ráðherra í því er að skapa slíkt andrúmsloft og hlutverk hans hefur gríðarlega mikið vægi. Ég vona því að ráðherrann varpi ljósi á þau álitamál sem hér hafa verið reifuð og svari þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram.