143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli sem er staða framhaldsskólans. Á því eru fjölmargar hliðar en ég vil byrja á að segja eitt, að hvað varðar fjárframlög til þessa skólastigs tókst í þessum fjárlögum, og það verður ekki nógu oft sagt, að koma í veg fyrir niðurskurð til rekstrar framhaldsskólans. Það skiptir verulega miklu máli. Það voru aðrir þættir sem urðu fyrir niðurskurði en rekstur framhaldsskólans var ekki skertur heldur var hann verðbættur og þær hækkanir sem komið höfðu ári áður voru látnar halda sér. Það skiptir máli.

Hitt er, og því er ekki að leyna, að það vantar fjármuni á þetta skólastig. Það er alveg augljóst þegar menn skoða stöðuna í framhaldsskólanum. Það er ekki svo að áherslur mínar á að breyta fyrirkomulagi náms á framhaldsskólastigi, að stytta það úr fjórum árum í þrjú, byggist á því að ríkið spari þar með peninga. Það er alrangt sem þingmaðurinn hélt fram, að það hefði verið eitthvert leiðarstef af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Því fer fjarri. Það sem skiptir hér máli er tími nemendanna, hvernig honum er varið og hvaða tækifæri nemendur á Íslandi hafa til þess að nýta tíma sinn sem best.

Ísland er eina landið innan OECD þar sem það tekur 14 ár að undirbúa ungmenni fyrir háskólanám. Í öllum öðrum löndum OECD tekur það annaðhvort 12 eða 13 ár. Ég leyfi mér að fullyrða að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem nám til stúdentsprófs tekur 14 ár. Sú staðreynd ein og sér á að vekja menn til umhugsunar. En það er fleira sem er athugunarvert og nauðsynlegt að skoða, t.d. sú staðreynd að einungis 44% af þeim ungmennum sem hófu nám á framhaldsskólastigi ljúka náminu á tilsettum tíma. Þegar sex ár eru liðin frá því að ungmennin koma inn í framhaldsskólann hafa einungis 60% lokið náminu. Það er líka mjög athugunarvert og er nauðsynlegt að skoða í samhengi við önnur lönd hvernig sú tölfræði lítur út.

Hvað varðar hvítbókina er það svo, og ég hef sagt frá því áður, að ég er að vinna að stefnumótun um breytingar á framhaldsskólastiginu, en ekki bara það heldur líka hvað varðar áherslur varðandi lestur og lestrarfærni. Það hangir svolítið saman, eftir því sem stærri hluti af krökkunum sem koma inn í framhaldsskólana á erfitt með að lesa sér til gagns, því erfiðara verður starfið í framhaldsskólanum. Það tvennt skiptir máli, það eru tvö meginmarkmið þeirra breytinga sem verið er að horfa á, þ.e. að styrkja starfið í framhaldsskólanum út frá þeim sjónarmiðum sem ég lýsti hér áðan og um leið að auka lestrarfærni íslenskra nemenda.

Við þessa vinnu hefur fyrst og síðast verið stuðst við starfsmenn ráðuneytisins en á undanförnum vikum og mánuðum hef ég kallað inn ýmsa aðila sem koma að þessu máli og munu koma að því, frá Kennarasambandi Íslands, Félagi framhaldsskólanema, sveitarstjórnum o.s.frv., allt þó með óformlegum hætti vegna þess að hér er ekki um að ræða fullbúið stefnuplagg sem verður síðan hrint í framkvæmd. Hér er um að ræða afmarkaðan umræðugrundvöll um ákveðin álitaefni og stefnumótun og þegar búið er að leggja það fram þarf að útfæra hvernig menn vilja gera það.

Það sem ég hafði hugsað mér er að sjálfsögðu samtal og samráð með formlegri hætti við ýmsa aðila, ekki bara kennarasamtökin heldur sveitarstjórnarmenn, foreldra og nemendur. Ég vil líka nefna það að ég átti fyrir skömmu fund með Heimili og skóla þar sem þessi mál voru meðal annars rædd, en ég mun líka, þegar þetta plagg er tilbúið, fara á sem flesta staði og kynna það fyrir almenningi af því að þetta snýr auðvitað að okkur öllum. Skólastarfið í landinu snýr að okkur öllum, þetta er eitt mikilvægasta málið sem við fjöllum um á vettvangi hins opinbera og ég vil reyna að fá sem víðtækasta umræðu um málið.

Þetta snýr því að grunnskólanum sem og framhaldsskólanum. Þetta snýr að læsinu og þetta snýr síðan að skipulagi námsins á framhaldsskólastiginu. Ég mun svo í síðari ræðu minni koma að því sem varðar launakjörin en ég hef þó bent á að með þessari aðgerð, að breyta fyrirkomulagi námsins á framhaldsskólastiginu, skapist vissulega svigrúm þótt það sé ekki tilgangurinn og ekki markmiðið með breytingunni. (Forseti hringir.) Ég geri mér vonir um að það geti orðið grunnur og möguleikar fyrir kennarana í samningum, (Forseti hringir.) að þar með sé hægt að hækka laun þeirra á þeim forsendum (Forseti hringir.) en það er ekki mitt að semja, ef svo má segja, því miður. Það er ekki starf menntamálaráðherra eða á hans ábyrgðarsviði að semja í kjarasamningum.