143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu, ég held að hún sé mjög mikilvæg. Ég held að það sé verið að gera margt gott í framhaldsskólanum og skólakerfinu á Íslandi, en það eru líka æðistórar vísbendingar um að við getum gert betur, t.d. tölur um brottfall úr framhaldsskóla.

Við í Bjartri framtíð höfum hvatt til þess að við hugsum út fyrir rammann og leyfum okkur að tala opinskátt og hugsa um nýjar lausnir í skólakerfinu. Mér hefur oft fundist umræðan um skólamál á Íslandi verða mjög fljótt allt of samanherpt og hnefinn fer fljótt á loft, einhvern veginn krepptur. Auðvitað hafa orðið mikil átök í skólakerfinu í kjaramálum, ég geri ekki lítið úr því, en við verðum einhvern veginn að geta lagt það til hliðar og hugsað: Hvernig nýtum við hæfileika, tíma og fé sem best í skólakerfinu?

Nú væri til dæmis ágætt ef hæstv. menntamálaráðherra mundi hlusta á þessa umræðu af athygli og sýna þar með gott fordæmi. Ég held að það sé mikilvægt í skólamálum, að kunna að hlusta.

Við horfum á mikla fjármuni fara í þetta, ég upplifi til dæmis hugmyndina um styttingu framhaldsnáms sem anga af þeirri umræðu. Hvernig nýtum við þetta fé best? Hvernig nýtum við tímann best? Vísbendingar koma frá öðrum þjóðum. Þar er námið styttra til stúdentsprófs, það er vísbending um að við séum kannski ekki að gera þetta alveg rétt hér. Og ég upplifi það þannig að betri rekstrargrundvöllur undir framhaldsskólann, ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri umræðu, að sparnaður sem getur hlotist af því að stytta framhaldsnám, jafnvel stytta grunnskólann, sá sparnaður getur nýst til að bæta kennsluna, til að bæta kjör kennara og til að taka upp nýjar námsleiðir svo dæmi sé tekið.

Við tölum oft um sveigjanleika í þessu kerfi, og hér er verið að hugsa út fyrir rammann. Við erum samt að gera þá kröfu, ég ætla að nefna dæmi, á framhaldsskólastigi að allir læri íslensku, ensku og stærðfræði. Ég þekki urmul af ungu (Forseti hringir.) fólki sem kemst ekki í gegnum þær kröfur. Hvar er þá sveigjanleikinn? Hvað meinum við með sveigjanleika? Ég held að við verðum að tala um þessa hluti opinskátt.