143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í kynningu er til umfjöllunar skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012. Í desembermánuði lauk stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis umfjöllun um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir undangengið ár og er álit stjórnskipunarnefndar að finna í þskj. nr. 371 sem er aðgengilegt á vefnum eins og önnur þingskjöl.

Í niðurlagi greinargerðar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur mikilvægt að þingið sinni því aðhaldshlutverki sem því er falið gagnvart framkvæmdarvaldinu og leggur því áherslu á mikilvægi þess að skýrslan verði rædd á þingfundi þannig að athygli þingmanna og annarra sé vakin á skýrslunni. Þá er einnig mikilvægt að þingmenn fylgist með þeim álitum sem umboðsmaður gefur út og eru aðgengileg á heimasíðu hans og nýti í sínum störfum.“

Í framhaldi af því vil ég nefna að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hélt opinn fund með umboðsmanni Alþingis 15. nóvember og var honum sjónvarpað en sjónvarpsupptakan er aðgengileg á vef Alþingis.

Ég vil fyrst víkja að fjárhagslegri stöðu þessa embættis sem þurfti að sæta aðhaldsniðurskurði í kjölfar hrunsins eins og önnur opinber starfsemi en þó var reynt að bæta í með aukafjárveitingum þegar sýnt var að mál voru að hlaðast þar mjög upp. Á komandi fjárlagaári er skorið talsvert niður við embættið þannig að það mun óhjákvæmilega að einhverju leyti bitna á þeirri þjónustu sem embætti umboðsmanns Alþingis getur veitt.

Þótt þrengt hafi verið að umboðsmanni Alþingis á sama hátt og annarri opinberri starfsemi eftir hrunið er það engu að síður svo að viðfangsefnin hafa verið að aukast. Stærsta stökkið var á milli áranna 2010 og 2011 en þá fjölgaði málum sem komu fyrir umboðsmann Alþingis um 40%, fóru úr 377 málum í vel yfir 500 mál. Þessi málafjöldi hjá embættinu hefur síðan ekki gengið niður.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir minni og þrengri fjárhag og aukið álag hefur embættið staðið sig með sóma og á því ári sem skýrsla umboðsmanns tekur til, 2012, voru afgreidd rúmlega 500 mál, 502 mál. Á síðasta ári, vorum við upplýst um, er málafjöldinn sem afgreiddur var frá umboðsmanni Alþingis ívið meiri þannig að embættið hefur sinnt hlutverki sínu mjög vel þrátt fyrir erfiðan og erfiðari fjárhag.

Í ljósi þess niðurskurðar sem við stöndum frammi fyrir nú er ljóst að grípa þarf til einhverra aðgerða. Þetta mun að einhverju leyti bitna á þeirri þjónustu sem embættið getur veitt, það er alveg ljóst, en við vorum upplýst um það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins að umboðsmaður er að horfa til nýrra leiða til að halda fjölda afgreiddra mála óbreyttum eða þannig að þau fari ekki niður. Jafnframt er embættið reyndar að stefna að því að afgreiðslutími verði aldrei lengri en sex mánuðir. Hvernig er reynt að gera þetta?

Í fyrsta lagi er verið að breyta ýmsum verkferlum. Það er verið og verður dregið úr skýrslugerð og greinargerðum sem fylgja hverju afgreiddu máli, það er ekki annarra kosta völ. Síðan er hitt, sem umboðsmaður hefur reyndar um árabil lagt áherslu á, og það er að embættið sinni frumkvæðisrannsóknum í ríkari mæli en verið hefur. Á því ári sem er til umfjöllunar núna, þ.e. árinu 2012, voru þau einungis tvö talsins, þau voru aðeins tvö af rúmum 500 málum. Umboðsmaður Alþingis segir þetta ekki viðunandi og vill stefna í þá átt að fjölga þeim málum. Hvers vegna? Jú, að uppistöðu til byggir starf umboðsmanns Alþingis á eftirfylgni eftir á, eftir að skaðinn er skeður. Þá koma umkvartanir til embættisins og embættið reynir síðan að fylgja málum eftir. En það þarf að byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann og það verður að hluta til gert með því að embættið efli eftirlit sitt með þessum óbeina hætti, með því að taka mál upp að eigin frumkvæði. Nefndin er hjartanlega sammála því að farið verði út á þær brautir.

Annað sem þarf að koma til eru breyttir verkferlar í stjórnsýslunni. Það er nokkuð sem umboðsmaður Alþingis hefur margoft talað fyrir og nefndin hefur tekið upp, m.a. að frumkvæði hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar, sem hefur lagt áherslu á að við skoðum í samræmi við hugmyndir sem hafa komið frá umboðsmanni Alþingis hvernig hægt er að örva stjórnsýsluna til þess að bæta verkferla sína og jafnframt að veita almenningi upplýsingar, gleggri upplýsingar um hvernig það geti borið sig upp við stjórnsýsluna. Allt skiptir þetta mjög miklu máli.

Við fjölluðum sérstaklega um það í yfirferð okkar og í framhaldinu greinargerð, en hér segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að það væri til mikilla bóta ef ráðuneytin gætu hvert og eitt og þær stofnanir sem undir þau heyra sett skýrar leiðbeiningar á heimasíður sínar um kæruleiðir í málum sem heyra undir þau sem og upplýsingar um tímamörk sem gilda í hverju tilfelli þannig að auðvelt væri fyrir borgarana að nálgast upplýsingar um þær. Nefndin beinir því til ráðuneytanna að skoða hvort unnt sé að verða við því.“

Um frumkvæðiseftirlitið segir í nefndaráliti okkar, með leyfi forseta:

„Nefndin tekur fram að eftirlit umboðsmanns með stjórnvöldum er eftiráeftirlit þar sem borgararnir kvarta til umboðsmanns þegar kæruleið innan stjórnsýslunnar hefur verið tæmd. Með frumkvæðiseftirliti er umboðsmanni unnt að taka ákveðið mál til meðferðar, málsmeðferð til almennrar athugunar eða starfsemi stjórnvalds t.d. með eftirlitsferðum. Með því getur umboðsmaður stuðlað að almennum umbótum í stjórnsýslunni án þess að vera með tiltekið mál einstaklings eða lögaðila til meðferðar en fyrir nefndinni kom fram að nánast daglega koma upp mál sem gefa umboðsmanni tilefni til að velta fyrir sér m.a. hvort borgararnir fái notið þeirra réttinda sem þeim eru ákveðin með lögum.“

Til hvers var þetta embætti sett á laggirnar á sínum tíma, fyrir tveimur áratugum? Það var til að efla og bæta réttarstöðu almennings sem stendur frammi fyrir stjórnsýslunni, þess vegna var embættið sett á laggirnar. Staðreyndin er sú að lagasmíð eða sá grunnur sem hún hvílir á hefur tekið breytingum á undanförnum árum, ekki aðeins hér á landi heldur í viðmiðunarríkjum okkar almennt og við höfum sumpart lagað okkur að því sem gerist annars staðar. Breytingin er einkum fólgin í því að lög byggja í ríkari mæli en áður var á almennum reglum. Síðan er hugsunin sú að það séu við lýði eftirlitsstofnanir og eftirlitsaðilar sem sjái til þess að farið sé að þeim almennu reglum.

Á því eru brotalamir eða víða er akkillesarhæl að finna, m.a. í því að séu settar almennar reglur, séu lögin mjög almenns eðlis, þarf framkvæmdaraðilinn að fá nánari reglur um útfærslu og hann setur þá reglugerðir sem standa fyrir utan hinn lýðræðislega vettvang, smíði reglugerðanna. Síðan er hitt að það þarf að vera vel starfandi öflugt eftirlitskerfi, eftirlitsaðilar, landlæknir fylgist með heilbrigðisþjónustunni fyrir hönd borgaranna o.s.frv. Inn í þá mynd kemur síðan umboðsmaður Alþingis. Það embætti var stofnað fyrir tveimur áratugum, eins og ég nefndi áður, til þess að sinna því eftirlitshlutverki.

Það sem ég er að leggja áherslu á og taka undir með umboðsmanni Alþingis er að hann beinir því til stjórnsýslunnar að hún hugi að þeirri breyttu hugsun sem stjórnsýslan og lagaumgjörðin hvílir á, að við þurfum að gæta betur að eftirlitshlutverkinu. Og þá segir hann: Það get ég gert með því að fá ríkari heimildir en ég hef haft til að sinna frumkvæðismálum, til að taka upp mál áður en þau skapa vanda. Áður. Ég vil líka sjá til þess að stjórnsýslan verði meðvituð um það hlutverk sitt, að hún reyni að komast hjá því að skapa mér viðskiptavini. Það gerir hún með því að gera alla sína verkferla gagnsærri og markvissari og síðan að sjá til þess að eftirlitið virki, að það gagnist borgaranum.

Mér finnst málflutningur umboðsmanns Alþingis mjög sannfærandi, hann er mjög sannfærandi. Auðvitað á markmið okkar að vera að reyna að koma í veg fyrir að fólk þurfi að leita til þess embættis með umkvörtunarefni sín. Auðvitað eigum við að reyna að bæta stjórnsýsluna, lögin og allt reglugerðarumhverfið þannig að það þjóni borgurunum að því leyti. Þetta höfum við tekið upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og viljum jafnframt beina því til stjórnsýslunnar að kynna sér vel ábendingar umboðsmanns Alþingis og þær áherslur sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur sett fram í greinargerð sinni.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég minna á að öll gögn er að finna á vefsíðum Alþingis, bæði opinn fund umboðsmanns Alþingis þar sem hann gerir mjög vel grein fyrir þeim áherslum sem ég er að lýsa, og síðan vísa ég til greinargerðar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem þau sjónarmið eru tíunduð betur og ítarlegar en gert verður í stuttri ræðu hér á Alþingi.