143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir mjög skýrt yfirlit yfir skýrslu umboðsmanns Alþingis. Ég tek undir með honum, ég tel að það embætti hafi svo sannarlega sýnt á þeim 20 árum sem það hefur verið starfrækt að það er orðið einn af grundvallarsteinunum sem réttur borgarans hvílir á. Ég tel að umboðsmaður hafi í mjög mörgum atriðum tekið á málum með þeim hætti að réttindi hins almenna borgara hafa bæði verið skýrð og frekar slegin í gadda. Ég þekki það þar sem ég hef verið einn af handhöfum framkvæmdarvalds hvað menn taka mikið mark á umboðsmanni og horfa til hans. Mér fannst stundum að ráðherrar notfærðu sér lítið þann möguleika að geta leitað til embættisins til að fá leiðbeiningar um það hvernig bæri að hafa stjórnsýsluna sem besta.

Á sínum tíma, þegar lögin voru sett um embættið, vonuðust menn auðvitað til að umboðsmaður yrði ekki bara í starfi með þeim hætti að hann tæki við ábendingum og umkvörtunum borgara, heldur hefði einmitt frumkvæðisréttinn. Það kemur nokkuð skýrt fram, þó að ég hafi ekki lesið skýrsluna nema bara eins og tíðkast hjá þeim þingmönnum sem standa utan við nefndina sem á að fara höndum um hana, að eitt af því sem umboðsmaður kvartar sjálfur yfir er geta embættisins til að taka sér sjálfstætt frumkvæði í að skoða mál.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. framsögumanns að hann nefndi að samkvæmt skýrslunni koma nánast daglega fram tilefni sem eru þess eðlis að umboðsmaður vildi gjarnan hafa sjálfstætt frumkvæði að rannsókn málsins. Það kom mér hins vegar á óvart þegar hv. framsögumaður sagði að embættið skorti heimildir. Ég held að það skorti engar heimildir til að ráðast með frekari hætti í slíkt og vildi spyrja hv. framsögumann hvort það eina sem skorti sé ekki einfaldlega (Forseti hringir.) peningar og fjármagn til að geta sinnt þessu góða aðhaldi.