143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:13]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012 þar sem farið er yfir starfsemina og litið til framtíðar og má segja að nauðsyn á embætti umboðsmanns endurspeglist vel í fjölda þeirra mála sem þar koma inn á borð. Eins og kom fram áðan voru þetta 536 ný mál árið 2012 og af þeim hafði umboðsmaður aðeins frumkvæði í tveimur. Þetta þýðir með öðrum orðum að það voru nánast tvö mál sem komu þar inn á borð á hverjum einasta virka degi ársins.

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, fór ágætlega yfir þessa skýrslu og í umræðum hér áðan kom fram að menn hafa áhyggjur af því að umboðsmaður hafi ekki frumkvæði í nógu mörgum málum og það er alveg rétt. Auðvitað væri æskilegt að frumkvæði hans væri mun meira og hann tæki að eigin frumkvæði upp mun fleiri mál á ári hverju en þessi tvö, þrjú eða fjögur. En það sem skiptir hins vegar máli í þessu er að hann þarf að afgreiða þau mál sem koma þar inn frá borgurum. Ef hann á að geta haft frumkvæði í fleiri málum verðum við náttúrlega að láta af sífelldum niðurskurði gagnvart þessu embætti og við verðum að setja meiri peninga þarna inn. Honum ber náttúrlega að sinna þeim málum sem þar koma inn frá almenningi og ef við ætlum honum frekara hlutverk kallar það á aukið fjármagn.

Hann afgreiddi 502 mál árið 2012 og stefna hans er að ljúka þessum málum innan sex mánaða frá því að þau berast. Umboðsmaður Alþingis myndar eins konar brú milli borgara þessa lands og stjórnvalda og það sjáum við mjög vel þegar farið er yfir þessi mál og þau flokkuð því að rúmlega 100 mál flokkast undir það sem kalla má tafir hjá stjórnvaldi við afgreiðslu máls. Málshraðareglan er mikilvæg í stjórnsýslunni og er mikilvægt að þessi regla sé í hávegum höfð og að almenningur þurfi ekki að bíða lengur en nauðsynlegt er með að fá úrvinnslu sinna mála.

Umboðsmaður bendir líka á í skýrslu sinni að með nýjum samskiptamáta og auknum hraða í þjóðfélaginu hafi kröfur borgaranna um skjóta afgreiðslu aukist undanfarin ár. Stundum eru þessar væntingar raunhæfar, stundum eru kröfurnar og óþolinmæðin úr hófi hjá fólki þannig að ég held að það sem hann stefnir að sé sex mánuðir, að það sé mjög raunhæfur tími.

Af öðrum stórum málaflokkum umboðsmanns Alþingis má nefna skattamál, þ.e. mál sem varða skatta og gjöld, málefni sem tengjast opinberum starfsmönnum, almannatryggingum og lögreglu og síðan sakamál. Þá er almenningur í vaxandi mæli farinn að leita til hans vegna menntamála.

Mörg þeirra mála sem koma inn á borð umboðsmanns Alþingis eru flókin úrlausnar og tímafrek. Þau kalla á mikla upplýsingaöflun, sem oft sést í skýrslum hans, en þær eru oft upp á tugi blaðsíðna. Aukin verkefni kalla líka á aukið fjármagn, eins og ég kom inn á áðan, og þar þurfum við verulega að bæta í. Niðurskurður í útgjöldum ríkisins hefur komið illa við það mikilvæga starf sem unnið er á vegum umboðsmanns Alþingis og við verðum að horfast í augu við að hér verðum við að bæta í á næstu árum, við getum ekki haldið svona áfram að skera niður í útgjöldum til þessa ágæta embættis. Almenningur á heimtingu á því að þessi mál séu í góðum farvegi og að hann hafi skilvirkan og góðan farveg fyrir þær kvartanir og athugasemdir sem kunna að vera fyrir hendi þegar kemur að samskiptum við stjórnvöld.