143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:50]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum komin að lokum umræðu um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012. Hún hefur verið mjög góð og mjög gagnleg. Menn tala mjög á einn veg; stuðningur við embætti umboðsmanns Alþingis er greinilega mikill í þessum sal.

Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni Össuri Skarphéðinssyni að það er almennt mat manna að þetta embætti hafi þróast á mjög farsælan hátt á undanförnum áratugum eða allar götur frá því það var sett á laggirnar 1988. Ég sagði að það væri 20 ára gamalt en í fyrra varð það 25 ára gamalt, svo allrar nákvæmni sé gætt.

Það er líka rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að velgengni embættisins kallar á það að sífellt fleiri snúa sér til þess. Það er alveg rétt. Staðreyndin er sú að þegar mælingar hafa sýnt að stofnanir stjórnsýslunnar og Alþingis og Alþingi sjálft hefur mælst með fremur bágborið álit hjá þjóðinni hefur þeim fjölgað sem sækja til umboðsmanns Alþingis til að standa vörð um réttindin.

Annað sem hefur komið fram hér er áhersla sem þingmenn leggja á að efla frumkvæðisstarf embættisins og jafnframt að stuðla að því að stjórnsýslan ræki hlutverk sitt betur gagnvart borgurunum. Ég held að það sé alveg rétt sem fram kemur hjá umboðsmanni Alþingis að ef stjórnsýslan getur tekið sér tak í því efni og fólk hafi trú á því að það njóti réttar síns innan stjórnsýslunnar mun þeim fækka sem leita til embættisins, það er alveg ljóst. Þá munu þessar stofnanir eflaust mælast betur og á hagstæðari hátt í könnunum með þjóðinni og draga úr því að fólk leiti til eða sjái sig knúið til að leita til umboðsmanns Alþingis.

Þá er spurningin þessi: Eigum við að hafa aðgreinda fjárveitingu til umboðsmannsins þannig að tiltekið fjármagn renni til þess að sinna frumkvæðismálum? Niðurstaða okkar í nefndinni var sú að með hliðsjón af þeim fjárveitingum sem renna til embættisins væri það ekki forsvaranlegt gagnvart því fólki sem bíður afgreiðslu mála sinna og jafnframt með hliðsjón af því að umboðsmaður Alþingis hefur sett sér það takmark að afgreiða mál innan sex mánaða frá því að embættinu berast þau. Við sáum ekki að svigrúm væri til þess að svo stöddu. Hins vegar tek ég undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þetta finnst mér íhugunarvert. Ég mun leita eftir því fyrir hönd stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis hvert álit embættisins er á slíku fyrirkomulagi til framtíðar.

Þá er komið að deginum sem kemur eftir þennan dag, það eru næstu fjárlög, við þurfum öll að vera mjög vakandi yfir því að búa svo um hnútana fjárhagslega fyrir þetta embætti að það geti sinnt þeim verkefnum sem við setjum á herðar þess með lögum. Við erum að tala um að stjórnsýslan þurfi að vera sjálfri sér samkvæm og að hún þurfi að vera ábyrg í verkum sínum. Það þurfum við líka að vera. Við sköpum þessu embætti sem öðrum lagaramma, setjum á það tilteknar skyldur og verðum að sjálfsögðu að veita fjármuni í samræmi við þær skyldur sem við setjum á herðar embættisins.

Ég vil að lokum þakka fyrir þá góðu umræðu sem farið hefur fram um þessa stofnun.