143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 164/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

275. mál
[13:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn, um tæknilegar reglugerðir, staðlaprófanir og vottun, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/53/ESB frá 7. júlí 2010 um kröfur varðandi gæði og öryggi líffæra úr mönnum sem eru ætluð til ígræðslu.

Tilskipunin mælir fyrir um samræmdar reglur um gæði og öryggi við meðhöndlun líffæra í því skyni að auðvelda líffæragjöf milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu, draga úr áhættu og hámarka árangur af líffæraígræðslum, og tryggja öryggi líffæragjafa og líffæraþega sem geta verið búsettir í mismunandi EES-ríkjum. Þannig er kveðið á um að innleiða skuli í landsrétt skilvirkt regluverk sem kveður á um samræmd gæða- og öryggisviðmið sem gilda skuli frá upphafi líffæragjafar til loka líffæraígræðslu.

Þá er með tilskipuninni jafnframt reynt að stemma stigu við sölu á líffærum þótt með óbeinum hætti sé, en tilskipunin hefur m.a. að geyma ráðstafanir sem eiga að gera það að verkum að ávallt sé unnt að tryggja rekjanleika þeirra líffæra sem ætluð eru til ígræðslu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingu á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, en gert er ráð fyrir því að innleiða tilskipunina með setningu reglugerðar með stoð í þeim lögum. Heilbrigðisráðherra hefur þegar lagt fram lagafrumvarp á yfirstandandi þingi til breytingar á lögum nr. 40/2007. Þar kemur m.a. fram að innleiðingin muni hafa minni háttar áhrif á þá þætti heilbrigðisþjónustunnar sem tilskipunin nær til þar sem sú þjónusta sem veitt er hérlendis á þessu sviði uppfylli nú þegar þau gæða- og öryggisviðmið sem kveðið er á um.

Krafan um rekjanleika líffæra mun hins vegar leiða til þess að aukin útgjöld munu falla á embætti landlæknis. Samkvæmt kostnaðamati með áðurnefndu frumvarpi rúmast sá kostnaður innan útgjaldaramma stofnunarinnar í fjárlögum.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðunni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu þessari verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.