143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 164/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

275. mál
[13:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu og er glaður yfir því tilliti sem hæstv. ráðherra hefur sýnt mér. Ég get sagt að það eru ýmsir menn í þessum sal þar sem ég vildi gjarnan sjá þau skipti verða sem hæstv. ráðherra bauð, en ætla ekkert sérstaklega út í það. Ég tek fram að ég átti ekki við hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. [Hlátur í þingsal.]

Ég ætla heldur ekki að þrátta við hann um það sem stendur í tillögunni. Það breytir engu um að önnur tveggja staðhæfinganna er röng. Annaðhvort er rangt að þjónustan hér á landi uppfylli þegar allt það sem tilskipunin kveður á um eða hitt, að breyta þurfi lögunum. Það skiptir heldur ekki máli fyrir mig vegna þess að ég styð hana. Ástæðan fyrir því að ég styð þingsályktunina er ekki vegna öryggis íslenskra borgara. Ég tel, eins og kemur fram í textanum, að kerfið á því sviði hér á landi, sem sennilega enginn þekkir betur en hv. þingmaður sem hér kinkar kolli og lagði fram gagnmerkt þingmál þar um, tryggi öryggi borgaranna. Við þurfum, Íslendingar, oft og tíðum að fá gefins líffæri handan landamæranna og menn vita að í vaxandi mæli eru komin upp ólögmæt viðskipti með líffæri. Við ræðum á eftir þingmál þar sem eitt fylgiskjalanna við það tekur einmitt á því.

Það sem tilskipunin færir með sér, þegar búið er að hrinda henni til framkvæmda í gegnum lög og reglugerðir, er að hún auðveldar rekjanleika líffæra sem þar af leiðandi dregur úr líkunum á því að menn séu að versla með líffæri, jafnvel að stela þeim úr fólki eða taka fólk af lífi til þess að afla þeirra. Það er hið jákvæða í málinu. Það hefði hæstv. utanríkisráðherra auðvitað átt að vita.