143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið, en mér heyrist svarið í reynd vera nei. Ég skil vel að rökin hvað varðar mannréttindin, þ.e. að nú getum við raunverulega talað við ráðamenn í Kína og tjáð okkur og sagt hvað okkur finnst um mannréttindamál þar. En það gerist t.d. reglulega að forsætisráðherra Japans fer í ákveðið musteri í Kína og biður eða fer með eitthvert ritúal og á hverju einasta ári kvarta Kínverjar yfir því. Það hefur sjaldnast nokkur áhrif á Íslendinga, en svo las ég nýlega í Morgunblaðinu sömu kvörtun og maður hefur heyrt áður, að þetta sé allt komið úr seinni heimsstyrjöldinni vegna þess hvernig Japanir fóru með Kínverja á þeim tíma, sem var auðvitað hræðilegt og allt það, en þá velti ég fyrir mér að slíkur þrýstingur hljóti að fara að skipta meira máli.

Munurinn á því að gera svona fríverslunarsamning við Kína miðað við að gera slíkan samning við Evrópuríki eða Bandaríkin eða jafnvel Rússland er að hinn almenni pólitíski skilningurinn er alla vega svipaður, á meðan Kína er allt öðruvísi pólitískt séð. Ég er ekki einu sinni viss um að kommúnismi í Kína sé það sama og kommúnismi hér vegna þess að pólitíska landslagið er allt öðruvísi.

Þess vegna hef ég verulegar áhyggjur af að það sé miklu meiri grundvöllur fyrir djúpstæðum pólitískum ágreiningi á milli Kína og Íslands eða Kína og Evrópuríkja almennt, en á milli Íslands og annarra stórvelda á borð við Bandaríkin og Evrópu. Evrópa og Bandaríkin held ég mundu aldrei hóta því að leysa upp slíkan samning ef við misstigjum okkur eitthvað í alþjóðasamskiptum. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að Kínverjar mundu gera það og a.m.k. beitt þrýstingi, sérstaklega vegna aflsmunarins.

Mér heyrist þetta ekki hafa verið rætt alvarlega. Þess vegna hef ég enn þá þennan fyrirvara. Jafnvel þótt ég telji rökin góð og gild hvað það varðar að við höfum nú vettvang til þess að ræða við Kína á, hef ég samt áhyggjur af þessu alfarið út frá alþjóðastjórnmálalegum sjónarmiðum.