143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, það er ekkert einhlítt í þessu máli. Það er ekki hægt að setja neina fortakslausa reglu.

Ég er sammála því að betra sé að hafa samskipti við Kína til að hafa aðstöðu til að hafa áhrif í gegnum viðræður. Það sem þessi samningur neglir niður er eiginlega tvenns konar farvegur til að ræða það sem við getum sagt að falli undir mannréttindi, annars vegar vinnusamkomulagið sem hv. þingmaður drap aðeins á og hins vegar þetta pólitíska samráð sem var líka í gadda slegið í yfirlýsingu forsætisráðherranna í Beijing í apríl síðastliðnum. Þetta skiptir allt saman máli.

Þegar við erum að leita okkur leiðsagnar um það hvernig við eigum að svara þeim spurningum sem óhjákvæmilega koma upp í umfjöllun um mál af þessu tagi, eins og þau sem varða mannréttindi sem ég tel algjörlega sjálfsagt að ræða í tengslum við fríverslunarsamninga, hljótum við að skoða þau samtök sem lifa beinlínis til að láta sig mannréttindi varða.

Mér þótti ákaflega merkilegt að lesa umsögn Amnesty International. Það eru fá samtök sem ég ber meiri virðingu fyrir. Þau eru hörð í sinni gagnrýni á það hvernig kínversk stjórnvöld haga afstöðu sinni til mannréttinda. Hver er niðurstaða þeirra? Þau leggjast ekki gegn því að við gerum þennan samning heldur skora þau á íslensk stjórnvöld að nota þau tækifæri sem hann opnar til að hafa áhrif á afstöðu kínverskra stjórnvalda gagnvart mannréttindum. Þetta finnst mér mergurinn málsins.

Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi hér fram þannig að sú afstaða sem birtist með þverpólitískum hætti í utanríkismálanefnd er í reynd í samræmi við afstöðu Amnesty International. Það er mikilvægt (Forseti hringir.) að það komi fram.