143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var kannski ekki beint andsvar við ræðu mína heldur meðsvar ef svo má frekar segja. Hv. þingmaður kom inn á umsögn Amnesty International sem ég gat ekki sérstaklega um en það er rétt að í umsögn Íslandsdeildar Amnesty International segir, með leyfi forseta:

„Íslandsdeild Amnesty International skorar á íslensk stjórnvöld, þar á meðal á Alþingi og utanríkismálanefnd hennar, að nýta þau tækifæri sem þeim kunna að gefast til að vekja athygli á bágri stöðu mannréttindamála í Kína, að hvetja kínversk stjórnvöld — þar á meðal í tengslum við umræddan fríverslunarsamning og framkvæmd hans — til að gera úrbætur í þeim málum og að leggja öðrum ríkjum lið við að setja slíkan þrýsting á kínversk stjórnvöld.“

Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta skiptir auðvitað máli, þetta er viðhorf samtaka eins og Amnesty International sem fást við það frá degi til dags að skoða stöðu mannréttindamála um allan heim og þekkja auðvitað mjög vel til mála í Kína eins og víða annars staðar. Þau segja sem sagt í upphafi umsagnar sinnar að Íslandsdeild Amnesty International sé ekki mótfallin umræddum fríverslunarsamningi og leggist ekki gegn fyrirliggjandi stjórnartillögu um að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórn að fullgilda hann fyrir Íslands hönd, en bendir einmitt á þessi atriði og veitir síðan upplýsingar um umfjöllun samtakanna í ársskýrslu 2013 þar sem meðal annars er fjallað um helstu mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda um þessar mundir. Í lokin er hvatt til þess að Ísland nýti öll tækifæri, þar á meðal í gegnum þennan fríverslunarsamning.

Ég ítreka að það eru auðvitað hin pólitísku samskipti sem við nýtum til að koma á framfæri sjónarmiðum í þessa veru en kannski ekki beint fríverslunarsamningurinn sem slíkur, hin almennu pólitísku tengsl. Þau eru að vísu tæki í þessum samningi líka, en almennt hljóta það að vera hin pólitísku samskipti sem við eigum við Kína sem við nýtum til þess að koma viðhorfum okkar á framfæri.