143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Lýðræðið er margbrotið, hefur margar hliðar. Sú samræða sem við eigum hér er mjög mikilvæg. Það er mjög mikilvægt að þær skoðanir heyrist sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur. Þær skipta líka máli fyrir þróun samskipta okkar og Kína. Það skiptir máli að íslenskir þingmenn hafi þessar skoðanir.

Eins og ég hef áður sagt í umræðum sem ég hef átt við hv. þingmann þá eru margar hliðar á þessu máli. Það er ekkert einhlítt í þessum efnum. Við höfum hins vegar farið yfir þessi mál og við höfum hlítt leiðsögn. Við höfum leitað til þeirra sem hv. þingmaður hefur stundum prísað fyrir afstöðu sína til mannréttindamála, eins og Amnesty International.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Er hún ósammála því sem segir í umsögn Amnesty International sem er á þá lund að samtökin leggjast ekki gegn gerð þessa fríverslunarsamnings og skora á íslensku ríkisstjórnina að notfæra sér þau tækifæri sem opnast með honum til samskipta til þess að ýta á mannréttindi til betri vegar? Það er prinsippspurning sem mér finnst að hv. þingmaður þurfi að svara.

Ef við síðan horfum á Kína er það hárrétt hjá hv. þingmanni að þar er mjög margt sem mætti vera miklu betra. Ef hv. þingmaður hverfur 25 ár aftur í tímann og ber saman stöðu mannréttindamála í Kína þá við stöðuna í dag, er þar gríðarlega mikill munur. Hvað hefur breyst? Mikil samskipti Kínverja við hinn ytri heim. Mikil viðskiptasamskipti eiga sér nú stað þar. Það skiptir máli. Það er ekki eins og Íslendingar séu þeir einu sem gera svona samning við Kína, allar þjóðir Evrópu standa í biðröð og óska eftir svipuðum samningi. Við erum fyrsta Evrópuþjóðin sem sýnir það frumkvæði að gera vinnumálasamning og taka upp pólitískt samráð, sem er líka um mannréttindi, (Forseti hringir.) þýðir að öll hin ríkin munu taka það upp líka.

Að lokum mun þetta hafa áhrif vegna þess að þar sannast hið fornkveðna (Forseti hringir.) að dropinn holar steininn.