143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar samt með þeim hætti að það er eins og hún gangi út frá því að innan skamms verði Íslendingar orðnir þrælar kínverskra stjórnvalda. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af máli hv. þingmanns. Ef við getum ekki gert samning við Kína af ýmsum þeim ástæðum sem hv. þingmaður rakti hér áðan getum við heldur ekki gert samning við Indland, Malasíu, Víetnam, jafnvel Búrma. Menn gera samt samninga við þessi ríki, til þess að bæta efnahagsleg kjör þar, líka sjálfra sín, en jafnframt til þess að geta ýtt á þróun mannréttinda í þessum löndum. Það skiptir einfaldlega máli að þjóðir eins og við setji fram kröfur um að samningar séu virtir.

Kína hefur samþykkt fjóra af átta meginsáttmálum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, jafnmarga og Suður-Kórea, sem við gerðum samning við í gegnum EFTA og eins við Óman fyrir tveimur árum. Bandaríkin, sem mér virðist að sé eina ríkið af hinum stærri ríkjum heims sem hv. þingmaður telur að hægt sé að eiga einhver samskipti við, hafa bara samþykkt tvo, svo það komi nú alveg skýrt fram. Þar með er ekki sagt að Kína fari endilega jafn tryggilega og vel eftir þeim sáttmálum og æskilegt væri, en við erum þó alla vega að leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar í gegnum þetta samráð. Það skiptir máli að tala við Kínverja og það er alltaf gert af hálfu Íslendinga. Þegar öll önnur ríki í Evrópu gera það líka hefur það áhrif. Hv. þingmaður þarf ekki annað en að skoða þróun síðustu 25 og 30 ára í Kína til þess að sannfærast um það.

Fyrir þremur eða fjórum mánuðum dró hv. þingmaður það í efa þegar ég sagði að ný stjórnvöld í Kína væru t.d. að leggja af óskráðar vinnubúðir. Ég vísaði í frétt Ríkisútvarpsins sem var fyrsti fjölmiðill í heimi til þess að segja frá því. Hvað hefur gerst síðan? Í ræðu (Forseti hringir.) nýs forseta Kína á þessu ári var það fyrsta sem hann sagði að hann mundi beita sér fyrir þessu og leggja fram áætlun, þ.e. nákvæmlega það sem ég nefndi. (Forseti hringir.) Það hefur áhrif að menn banki á.