143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að heilmikil viðskiptaleg tækifæri felast í þessu. Það er jú þess vegna sem ég hef þessar áhyggjur. Ef ég teldi að samningurinn hefði engin teljandi efnahagsleg áhrif hefði ég ekki sérstakar áhyggjur af þessu. Málið er hins vegar það að ég hef áhyggjur af því að þetta fari að skipta íslenskan efnahag verulegu máli.

Ég get ekki ímyndað mér að í framtíðinni sé ríkisstjórnin að ræða hvort hitta eigi til dæmis Dalai Lama frá Tíbet án þess að taka það með í reikninginn hvernig viðskiptasamband Íslands er gagnvart Kína. Kína hefur kvartað hatrammlega í hvert sinn sem nokkur þjóð hittir Dalai Lama vegna þess að Kína lítur á það sem innanríkismál.

Einhvern tíma vorum við Íslendingar stoltir af því að viðurkenna sjálfstæði annarra þjóða og ég treysti því að svo verði áfram. En ég get ekki alveg treyst því að það verði alltaf þannig í öllum samtölum ríkisstjórna framtíðarinnar þegar slík viðskiptaleg sjónarmið liggja að baki, sem þau hljóta að gera einmitt vegna þess að þetta er viðskiptalega góður samningur, vegna þess að hann getur lækkað vöruverð hér verulega og vegna þess að hann getur aukið útflutninginn. Allt þetta getur Kína tekið til baka ef við móðgum Kína of mikið, ef við samþykkjum Japan of mikið, ef við tölum of mikið við Dalai Lama. (Gripið fram í.) Þeir geta ekki brotið samninginn en þeir geta beitt þrýstingi, og auðvitað geta þeir hætt við vegna þess að það munar Kína einfaldlega ekki það miklu.

Gott og vel, kannski eru þessar áhyggjur mínar ekki til neins, ég vona það, ég vona að þetta sé bara þvæla hjá mér, ég vona það hjartanlega. En ég heyri að einu svörin við þessum áhyggjum mínum eru þessi: Gott að þessi sjónarmið komi fram. Ég heyri engan segja: Já, ég hef líka áhyggjur af þessu, við ættum að gera eitthvað til þess að vera í það minnsta reiðubúin.

Ég velti því aftur fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi ekki einhverjar áhyggjur af þessu, hvort honum þyki ekki við hæfi í það minnsta að ræða þetta með hliðsjón af því að þetta sé raunveruleiki en ekki bara vangaveltur þingmanns í ræðupúlti.