143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er óskandi að við gerum fullt af fríverslunarsamningum við einræðisríki, við getum örugglega fengið góðan lista yfir þau.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti upplýst þingheim um hvaða hagsmunaaðilar hafa sótt fastast að samningurinn yrði gerður. Síðan langaði mig í kjölfar ræðu hans að spyrja hvernig í ósköpunum við ætlum að framleiða alla þessa mjólk. Ætlum við að flytja hana inn frá Írlandi og senda hana svo út sem íslenska?

Fyrst við erum í umræðum um mannréttindi þá man ég eftir því að þegar Dalai Lama kom til Íslands á sínum tíma gekk ekki greiðlega að fá íslenska ráðamenn til að hitta hann af ótta við viðbrögð kínverskra yfirvalda, en það koma alltaf staðlaðar hótanir ef Dalai Lama kemur til landa. Ég sagði við fólk að það gæti verið algjörlega rólegt því að kínversk yfirvöld mundu ekki gera neitt, þegar nokkrir ráðherrar urðu loksins við því að hitta þennan mikla friðarhöfðingja.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort ekki væri tilefni til þess að fagna samningnum og bjóða Dalai Lama í opinbera heimsókn til Íslands.