143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:42]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína. Hér er um tvö lönd að ræða þar sem stærðarmunur er í hlutfallinu 1:3.000, eitt minnsta land veraldar semur við stærsta og fjölmennasta land veraldar. Auðvitað eru það tíðindi.

Þessi fríverslunarsamningur er ekki jafngildur þeim samningi sem Ísland gerði við Evrópusambandið og gengur undir nafninu samningur um Evrópska efnahagssvæðið. Þessi samningur tekur einungis til frjálsra viðskipta með vöru.

Nú er það svo í íslenskri sögu að við höfum ekki alla tíð búið við frjáls viðskipti. En ég minnist þess að í skrifum sínum lagði Jón Sigurðsson, sem er hér með okkur, mikla áherslu á frjáls viðskipti, að frjáls viðskipti mundu að lokum efla hag þjóða og yrði í rauninni það sem efldi hag þjóða. Þjóðir flyttu út það sem þær gerðu best og flyttu inn það sem þær kynnu lítt til, og hvort tveggja mundi efla hag þeirra sem ættu í viðskiptum. Þessi samningur gengur út á vöruviðskipti og ekkert annað. Hann fjallar ekki um fjárfestingar, hann fjallar ekki um frjálst flæði vinnuafls, hann fjallar ekki um frjálst flæði fjármagns, það stendur algjörlega fyrir utan þennan samning.

Ég sagði í upphafi að hér ættu í samningum eitt minnsta land veraldar og eitt stærsta land veraldar. Í því sambandi dettur mér í hug sú afstaða sem mótað hefur afstöðu mína til Kína á síðustu árum, það er afstaða sem ágætur rithöfundur setti fram. Hann var hernámsandstæðingur, sósíalisti, og þegar hann var spurður að því hvort hann væri ekki sáttur og ánægður þegar bandarískt herlið var farið frá Íslandi, hvort það væri ekki fullnaðarsigur. Nei, sagði hann, áhyggjur mínar eru enn þá til staðar, ekki af Bandaríkjunum heldur af Kína. Kína er vaxandi efnahagsveldi og ég hef áhyggjur af stærð Kína.

Ég hef í rauninni áhyggjur af stærð Kína, en hins vegar er það svo að Íslendingar hafa flutt inn vörur frá Kína. Á árinu 2012 fluttum við inn vörur frá Kína fyrir tæplega 43 milljarða en við fluttum út vörur fyrir aðeins 7,7 milljarða. Hér er um verulegan viðskiptahalla að ræða, þar hallar á okkur og ef þessi samningur má verða til þess að bæta úr þessum halla er það til góðs. Ég vona svo sannarlega að samningurinn verði til að greiða fyrir viðskiptum milli þessara þjóða. Ég ítreka að þessi samningur tekur ekki til ýmissa þátta, hann tekur ekki til hugsanlegs samstarfs á norðurskauti og olíuleit á íslenskum hafsvæðum er sömuleiðis fyrir utan þennan samning, það er sérstakur samningur. Samningar um hafnargerð á Íslandi, um kínverska höfn á Íslandi, verða ekkert greiðari með þessum samningi eða þá hugsanleg kaup Kínverja á íslenskum banka. Ef ég lifi það að gerður verði samningur um kínverska höfn á Íslandi mun ég nú hugsa mig margsinnis um og sömuleiðis ef Kínverjar kaupa banka á Íslandi. Ég mun alla vega setja fyrirvara þar á, en ég er ekki að semja um það hér. (Gripið fram í: Þú hefur ekkert um það að segja.) Hef ég ekkert um það að segja? Við skulum athuga það bara. (Gripið fram í.)

Það er merkilegt að þeir sem helst hafa dregið úr ágæti þessa samnings hafa í rauninni aldrei hvatt til þess að sett verði viðskiptabann á Kína. Ég tek eftir því að á hverju sumri þegar landsmenn og gestir þeirra hlaupa Reykjavíkurmaraþon er hver einasti hlaupari í skófatnaði frá Kína. Ég vona svo sannarlega að skófatnaður frá Kína muni lækka í verði við þennan samning.

Það helsta sem kom fram hjá þeim sem höfðu efasemdir um samninginn voru áhyggjur af mannréttindum í Kína og af stöðu mála á vinnumarkaði. Þetta er hvort tveggja áhyggjuefni hjá mér og ég tel að með þeim yfirlýsingum sem hér standa höfum við alla vega samning í höndum sem gefur okkur færi á að gera athugasemdir við stöðu mannréttinda og stöðu mála á vinnumarkaði, hvort okkur verður ágengt eða ekki skal ég ekki segja, en við höfum alla vega möguleika.

Það er eitt sem ég nefndi þegar hæstv. utanríkisráðherra flutti þessa tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamningsins, það eru viðskipti við Taívan.

Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa upp úr fylgiskjali III í þskj. 73:

„Báðir aðilar áréttuðu að þeir virða að fullu fullveldi og friðhelgi landamæra hvors annars. Ísland fylgir þeirri stefnu að Kína sé eitt og óskipt ríki og styður friðsamlega þróun samskipta yfir sundið og þá viðleitni að Kína sameinist á ný með friðsamlegum hætti. Kína metur mikils fyrrnefnda afstöðu ríkisstjórnar Íslands.“

Ég er ekki svo bjartsýnn að halda að það verði svo að þessi tvö lönd sameinist og ég tel að þetta muni ekki hafa nein áhrif á viðskipti við Taívan, sem er sömuleiðis öflugt viðskiptaland okkar, kaupir mikið af sjávarafurðum af okkur og mun vonandi kaupa meira. Ég endurtek að með þessum fríverslunarsamningi og stuðningi við hann er ég alls ekki að réttlæta mannréttindabrot. Mannréttindi eru ekki hlutfallsleg. Mannréttindi sem ég vil búa við eru þau mannréttindi sem ég ætla öðrum að búa við. Ef staða mannréttindamála í Kína er mér ekki að skapi í dag ætla ég ekki að réttlæta þá stöðu með því að styðja og fullgilda þennan samning.

Ég vil nefna til gamans í lokin á þessari ræðu minni að frjáls verslun verður heldur til þess að ýta vanhæfum valdhöfum úr vegi. Ég hef t.d. horft á hvernig Bandaríkin hafa beitt Kúbu viðskiptaþvingunum og viðskiptabanni í 50 ár og ekkert gengið. Ég hef stundum hlegið innra með mér og hugsað: Hvað mundi nú gerast á Kúbu ef Bandaríkin gæfu eftir og hættu með viðskiptahömlur á Kúbu? Mundi stjórnarfar á Kúbu breytast? Því svarar hver fyrir sig.

Að því mæltu ætla ég að segja að ég rita undir þetta nefndarálit án fyrirvara en þó vil ég árétta að mannréttindi skal virða í öllum löndum. Sömuleiðis skulu verkalýðsfélög vera frjáls, viðskipti skulu vera frjáls til að efla hag þjóða. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.