143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta hefur verið góð umræða og ég held að í sjálfu sér leiki enginn vafi á því að frá viðskiptalegum sjónarhóli er þetta góður samningur sem felur í sér mikil tækifæri. Ég fagna því líka að við erum að ræða mannréttindamál í Kína og afstöðu okkar til þeirra og ætlum þá vonandi að nota tækifærið til þess jafnvel að gefa í í gagnrýni okkar á mannréttindamál í Kína.

Það hefur ítrekað verið sagt hérna og mikil áhersla er lögð á það í nefndaráliti utanríkismálanefndar að þessi samningur feli í sér tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum okkar varðandi vinnurétt og mannréttindi í Kína. Ég fagna þeirri áherslu. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi samningur geri okkur ekki að einhverjum viðhlæjendum Kínverja í mannréttindamálum. Ég legg ríka áherslu á það.

Við höfum oft sýnt það, Íslendingar, að við látum ekki viðskiptalega hagsmuni stjórna afstöðu okkar í mannréttindamálum og við eigum heldur ekki að gera það núna. En mér finnst eðlilegt vegna stærðarmismunar þjóðanna að grunsemdir vakni og að ákveðin hætta sé á því að við verðum keypt á einhvern hátt á löngum tíma með góðum viðskiptum til fylgilags við mannréttindabrot. Mér finnst því mjög mikilvægt að við tölum skýrt og leggjum ríka áherslu á að við ætlum að láta skýra rödd okkar gegn mannréttindabrotum og brotum á vinnurétti í Kína hljóma.

Mig langar því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvaða áherslur hann telur mikilvægastar í þeim efnum og hvernig ráðuneyti hans og hann í sinni veru í ráðuneytinu hyggst nýta þetta tækifæri, hvaða áherslur verða lagðar og hvaða áætlanir liggja fyrir um það að nýta þetta tækifæri.