143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að íslenskt viðskiptalíf muni dansa eftir höfði drekans í meira mæli. Það getur vel verið að í einhverjum tilvikum verði sterkt viðskiptasamband milli fyrirtækja og slíkt sem geri mönnum erfitt fyrir að einhverju leyti. Þetta held ég kannski að sé til staðar í dag, bara ef við horfum á þann útflutning sem við eigum í dag. Við erum lítið land. Við þurfum á stærri viðskiptahópi að halda. Þess vegna held ég að Kínverjar og Kína séu góð viðbót inn í það viðskiptaumhverfi sem við höfum í dag.

Við megum heldur ekki gleyma því að í gegnum EFTA eigum við aðild að 26 fríverslunarsamningum við 38 ríki eða um það bil, sem standa íslenskum fyrirtækjum til boða. Í dag er verið að reyna að ljúka samningum við Indland sem er markaður rúmlega milljarðs manna. Það standa yfir samningaviðræður við Rubeka-löndin, Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan. Það stendur til að uppfæra samninginn við Kanada. Bandaríkjamenn eru að semja við Evrópusambandið og munu líklega bjóða okkur svipaðan samning. Það er mikið að gerast sem minnkar líkurnar á því að við séum einhverjum einum háð þegar kemur að viðskiptum, þjónustu og þess háttar.

Síðan leyfi ég mér líka að segja að ég tel að margt sé að breytast í jákvæða átt í Kína þó að margt, að okkar mati, mætti gerast hraðar og betur. Ég vil þar til dæmis nefna aftur þau samskipti sem eru í dag milli Kína og Taívan. Ég ætla líka að nefna að Kínverjar eru mjög áhugasamir og virkir í því að leggja sitt af mörkum þegar kemur að loftslagsmálum í dag. Þeir eru til dæmis áhugasamir um að nýta þann jarðvarma sem þeir eiga og slíkt því að þeir skynja að þeir geta ekki setið eftir þegar kemur að loftslagsmálum og sjá það best á sínu eigin skinni í borgunum í Kína.

Ég mun að sjálfsögðu, út af spurningum þingmannsins, nú sem fyrr taka upp mannréttindamál á þeim fundum sem ég á með kínverskum ráðamönnum. Þannig hefur það verið á þeim stutta tíma sem ég hef verið í ráðuneytinu og þannig verður það. Þannig hefur það líka verið hjá öðrum ráðherrum þessarar ríkisstjórnar. Við tökum upp þessi mál og bendum á það sem betur má fara að okkar mati. Nú höfum við þetta samkomulag eða hvað við köllum þetta, menn hafa kallað ýmsum nöfnum hér í dag, við stjórnvöld í Kína og við munum að sjálfsögðu nýta það.