143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Tillögur sérfræðingahóps um verðtryggingu voru kynntar í síðustu viku og það er ekkert launungarmál að verðtrygging hefur verið ofarlega á baugi í pólitískri umræðu, ekki síst fyrir síðustu kosningar. Ég hef raunar verið þeirrar skoðunar að verðtrygging sé kannski fyrst og fremst einkenni á ákveðnu vandamáli fremur en vandinn sjálfur, þ.e. óstöðugleika í efnahagslífi. Eigi að síður er það rétt að flestir flokkar töluðu fyrir því að draga ætti úr vægi verðtryggingar í samfélaginu. Framsóknarflokkurinn gekk þó lengra og lofaði því fyrir síðustu kosningar að afnema verðtryggingu af neytendalánum og lýstu jafnvel sumir frambjóðendur því yfir að það væri skilyrði fyrir stjórnarþátttöku að tekið yrði á því máli.

Í tillögum hópsins er hins vegar farin sú leið að draga úr vægi verðtryggingar fremur en að fara í afnám verðtryggingar enda kom fram hjá formanni hópsins að fullt afnám verðtryggingar væri af áður óþekktri stærðargráðu, þetta væri kerfisbreyting sem snerti mjög marga fleti lögfræði og fjármála og því þætti mikilvægt að meta áhrifin á neytendur, lánveitendur, fasteignamarkað og hagkerfið í heild áður en ráðist yrði í fullt afnám. Og það er vissulega rétt og þegar hefur verið bent á að þetta geti haft áhrif, þ.e. ef fylgt verður þeim tillögum nefndarinnar að banna hreinlega 40 ára verðtryggð lán, að það geti haft áhrif á þá hópa sem eru tekjulægri en aðrir þegar kemur að tækifæri til að kaupa sér húsnæði.

Málið virðist flókið þegar við höfum skoðað tillögurnar, þetta afnám. Hæstv. forsætisráðherra ítrekaði hins vegar þá afstöðu sína í gær, eftir því sem ég heyrði best í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni, að afnám verðtryggingar væri í raun einföld aðgerð og það ætti að hrinda henni í framkvæmd eins fljótt og mögulegt væri. Mig langar að spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra telji raunhæft að ráðist verði í afnám verðtryggingar á þessu kjörtímabili (Forseti hringir.) og hvernig nákvæmlega hann sjái það fyrir sér að það fari fram ef hann getur svarað því á þeim örstutta tíma sem hann hefur.