143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrri spurningunni er auðsvarað og fljótsvarað. Já, ég tel að það sé mögulegt að afnema verðtrygginguna á þessu kjörtímabili.

Hvað varðar seinni spurninguna, útlistun á því með hvaða hætti best sé að framkvæma það — og þá fylgir væntanlega hvaða mótvægisaðgerðir og aðrar ráðstafanir séu nauðsynlegar — þá leitaðist sérfræðingahópurinn við að svara þeirri spurningu og raunar í tveimur álitum, tveimur allstórum skýrslum, þannig að ég næ ekki einu sinni að rekja það álit hér. Á heildina litið eru þó mikil tíðindi fólgin í niðurstöðu sérfræðingahópsins. Tíðindin eru þau að bæði meiri hluti og minni hluti lýsa því hversu mikla alvarlega galla og hættur verðtryggingin hafi í för með sér og hversu mikilvægt sé að afnema hana. Þá greinir að vísu á um hversu hratt sé óhætt að gera það en í báðum tilvikum liggur fyrir að samstaða er um það meðal þeirra sérfræðinga sem voru fengnir til að vinna þessa vinnu að rétt sé að vinna að afnámi verðtryggingarinnar. Þar fylgir leiðarvísir, í raun tveir leiðarvísar, um hvernig best sé að standa að því.

Það eru auðvitað mikil tíðindi eftir áratugadeilur og umræðu um verðtrygginguna að við skulum vera komin á þennan stað. Nú bíður okkar í þinginu og í ríkisstjórn að vinna úr þeim miklu rannsóknum sem sérfræðingarnir lögðu í og tillögum sem frá þeim bárust til að sem best megi standa að afnámi verðtryggingar og sem hraðast.