143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Eftir að hafa skoðað þessar tillögur sýnist mér að málið geti orðið flókið í framkvæmd því að afnám verðtryggingar kallar algerlega á endurskoðun á öllu húsnæðiskerfinu. Eins og ég nefndi hér áðan hefur þegar verið bent á að til að mynda að bann við 40 ára verðtryggðum lánum hafi áhrif á tekjulægri hópa, þ.e. hvernig þeir eigi þá að geta keypt sér húsnæði sem aftur kallar á að við endurskoðum það hvernig við eigum að byggja hér upp fasteignamarkað, að við endurskoðum stöðu Íbúðalánasjóðs. Ég veit að yfir stendur stefnumótun á sviði húsnæðismála, eins og hæstv. forsætisráðherra mun kannski nefna hér á eftir í síðara svari sínu, en þetta gæti þó orðið út frá því sem ég les út úr skýrslu sérfræðingahópsins kannski síður minna einföld aðgerð en boðað hefur verið því að þetta kallar á bæði mótvægisaðgerðir á húsnæðismarkaði en líka hreinlega, og það er nú kannski stóra málið þegar við ræðum um verðtrygginguna og ræðum hana sem vandann, að hér sé ábyrg stjórn efnahagsmála þannig að við getum haldið stöðugleika í efnahagslífinu.