143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að sérfræðingahópurinn um afnám verðtryggingar vísar ýmsum álitamálum til þess hóps sem nú vinnur að stefnumótun á sviðið húsnæðismála, og allt tengist þetta eins og hv. þingmaður rakti mjög vel, allt tengist þetta og þarf að skoða í samhengi. Það er það sem verið er að gera.

Ég ítreka hins vegar það sem ég hef sagt áður að þó að afnám verðtryggingarinnar sem slíkrar sé einfalt, það er raunar mjög einfalt að segja bara að verðtryggð neytendalán séu bönnuð, hefur það legið fyrir eins og við höfum margoft rakið, og notuðum sem meginrökstuðning fyrir því hvers vegna þessi mikla vinna þyrfti að fara fram, að þær aðgerðir sem þarf að ráðast í samhliða afnámi verðtryggða kerfisins, þ.e. yfirfærslu yfir í nýtt kerfi, eru eðli málsins samkvæmt umfangsmiklar og flóknar. Þegar verið er að taka upp nýtt fjármálakerfi í landinu er að mjög mörgum hlutum að huga og það hefur verið gert í þessari vinnu að undanförnu og fyrir vikið eru þingið og ríkisstjórnin (Forseti hringir.) vel í stakk búin til að vinna að afnámi verðtryggingar.