143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

hlutverk verðtryggingarnefndar og verðtryggð lán.

[15:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Meiri hluti nefndarinnar lagði ekki til neina útfærslu á afnámi verðtryggingar. Það gerði hins vegar Vilhjálmur Birgisson vel og heiðarlega. Maður hlýtur þá að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hann að afneita tillögum síns eigin meiri hluta í nefndinni um að það eigi ekkert að gera í verðtryggingarmálum næstu árin nema bara afnema 40 ára lánin og lýsa því yfir að hann ætli að hrinda í framkvæmd tillögum Vilhjálms Birgissonar?

Ég hlýt líka að nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. forsætisráðherra um það sem hann skrifaði 15. mars 2013, að fólki með verðtryggð lán — og það kemur þessari nefnd ekkert við því það er alveg sjálfstætt mál — eigi að gefast kostur á því að flytja lánin sín yfir í óverðtryggð lán og að það væri ekki flókið mál. Og úr því að það var ekki flókið mál, virðulegi hæstv. forsætisráðherra, hvenær má almenningur, tugir þúsunda heimila í landinu, þá búast við því að honum bjóðist að flytja sig yfir í óverðtryggð lán eins og hæstv. forsætisráðherra lofaði?