143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

hlutverk verðtryggingarnefndar og verðtryggð lán.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er mikill plagsiður hjá virðulegum þingmanni að koma hér stöðugt upp í fyrirspurnatíma til ráðherra og ryðja út úr sér einhverri vitleysu þannig að ekki gefst færi á að svara eðlilegum spurningum heldur þarf maður að vera að leiðrétta ýmsar rangfærslur hv. þingmanns.

Hv. þingmaður bar það til dæmis upp á meiri hluta sérfræðingahópsins um afnám verðtryggingar að hópurinn legði til að ekkert þyrfti að gera í því að afnema verðtryggingu næstu árin nema banna 40 ára lánin. Þetta er bara rangt, þetta er bara alrangt. En til viðbótar við það að meiri hlutinn var mjög afdráttarlaus um mikilvægi þess að afnema verðtrygginguna og lagði fram tímasetta áætlun um skref í þeim efnum þá kom minni hlutinn, Vilhjálmur Birgisson, með hraðari útfærslu á slíku afnámi.

Nú er spurningin, sem menn standa frammi fyrir, því sú hvort minni hlutinn hér á þinginu og ekki síst Samfylkingin ætli fyrst og fremst að halda langar útúrsnúningaræður eða taka afstöðu til þess hvort hún komi með í það verkefni að afnema verðtrygginguna eða haldi áfram varðstöðu sinni um það kerfi.