143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

hagsmunir íslenskra barna erlendis.

[15:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina og þingmanninum fyrir að taka málið upp. Hvað varðar þessa þætti almennt þá, eins og þingheimur þekkir, eru ákveðnar varnir í gangi fyrir íslensk börn sem búa erlendis, sérstaklega ef börnin eru íslenskir ríkisborgarar. Ég á erfitt með að tjá mig um einstaka mál en tel þó að mér sé heimilt að segja frá þeirri upplifun minni í kringum þetta mál að við hljótum öll að harma hvernig því hefur reitt fram og hver staðan í málinu er.

Málið er sorglegt, það er persónulegt, það er átakanlegt og vekur okkur öll til umhugsunar um marga hluti er tengjast þáttum í samfélagi okkar. Það sem innanríkisráðuneytið hefur gert og hefur legið ljóst fyrir og komið fram í fjölmiðlum er það — og fyrst og síðast er það verkefnið — að reyna að verja hag barna og tryggja að þau njóti alls þess besta sem mögulegt er og njóti samvista við foreldra og að rétturinn sé ætíð þeirra megin. Það eru þeir samningar sem við höfum undirgengist, svokallaður Haag-samningur, auk þess sem það er hin eðlilega meðferð mála í siðuðum samfélögum eins og Ísland er. Þess vegna fór innanríkisráðuneytið í ákveðna skoðun á þessu máli eins og fram kom í fjölmiðlum síðastliðið sumar og ég óskaði eftir því að gerð yrði athugun og úttekt á því hvernig málið hefði á sínum tíma verið fram rekið af hálfu yfirvalda. Í ljós kom þá ákveðin niðurstaða af hálfu innanríkisráðuneytisins þar sem bent var á ákveðna þætti er tengjast meðferð málsins hjá sýslumönnum. Þetta er þekkt og þingmaðurinn þekkir það úr umræðunni.

Nú er staðan orðin önnur. Eins og hv. þingmaður vitnar til þá hefur móðirin verið dæmd í Hæstarétti til að fara til Danmerkur og mæta örlögum sínum þar. Innanríkisráðuneytið hefur áréttað og ítrekað sagt að gæta þurfi hagsmuna þessara barna og það kom fram í umræddu bréfi og umræddri úttekt frá innanríkisráðuneytinu, þ.e. mikilvægi þess að menn virði Haag-samninginn þegar kemur að meðferð slíkra mála.