143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

hagsmunir íslenskra barna erlendis.

[15:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um stöðu þessa máls og þá hryggð sem við hljótum öll að finna fyrir vegna þess hvernig það hefur borið upp og hver niðurstaðan er núna samkvæmt dómstólum. Við getum hins vegar ekki, eins og hv. þingmanni og þingheimi öllum er kunnugt um, blandað okkur með neinum hætti í niðurstöður dómstóla. Við höfum engar heimildir til slíks. Þess vegna hefur innanríkisráðuneytið, í öllu því sem við höfum tekist á hendur er varðar þetta mál sérstaklega, í ágætu samstarfi við velferðarráðuneytið, forsætisráðuneytið o.fl., beitt sér fyrir því og minnt á það innan stjórnkerfisins að gæta að því að hagur þessara barna sé tryggður eins og hægt er minnug þess að börnin eru íslenskir ríkisborgarar og þurfa við þessar aðstæður á ákveðinni vernd íslenskra stjórnvalda og íslenska kerfisins, ef hægt er að kalla það það, að halda.