143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

stefna stjórnvalda í áfengis- og vímuefnamálum.

[15:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við vinnslu þingsályktunartillögunnar funduðum við með yfirmanni geðsviðs Landspítalans, landlækni, yfirmanni Lyfjastofnunar, stofnendum Frú Ragnheiðar, sem er skaðaminnkandi úrræði hjá Rauða krossinum. Við funduðum með framkvæmdastjóra SÁÁ og við funduðum með ríkislögreglustjóra. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur fundið líka er almenn samstaða um það að það vantar þessi samþættu, samstilltu úrræði til að minnka eftirspurnina, allt frá forvörnunum yfir í einhvers konar leið um að vísa fólki inn í heilbrigðiskerfið þegar það er tekið með neysluskammta yfir í skaðaminnkandi úrræði, afvötnunarúrræði og að hjálpa fólki þegar það á endanum kemur úr afvötnun að fóta sig aftur vímulaust í lífinu.

Við píratar munum leggja þessa þingsályktun aftur fram á næstunni og vonumst til þess að þverpólitísk samstaða sé um að (Forseti hringir.) skipa faghóp um að finna bestu lagalegu úrræði sem heimurinn hefur upp á að bjóða til að minnka það böl sem misnotkun á vímuefnum er.