143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[15:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Því miður verður seint sagt að framkoma okkar við fólk sem kemur hingað og biðst hælis hafi verið til fyrirmyndar, heldur einmitt í hina áttina. Þá er auðvitað ekki verið að tala um það fólk sem kemur hingað í boði okkar sem flóttamenn. Fyrir það fólk reynum við að gera okkar besta. En það er ekki framkoman við það fólk sem hér er til umræðu heldur þau hin sem koma hingað óboðin og í flestum tilfellum óttaslegin og hrjáð og biðja hér um hæli, (Gripið fram í: Hvað er það kallað?) fólk sem í almennu tali er kallað hælisleitendur.

Þessu fólki fjölgar stöðugt. Árið 2011 leituðu 75 einstaklingar hælis hér en árið 2013 var fjöldinn orðinn 172. Eðli máls samkvæmt framvísa hælisleitendur fölsuðum skilríkjum af því að þeir eiga ekki önnur. Þeir eru þá gjarnan handteknir og settir í fangelsi. Fulltrúar Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna hafa gagnrýnt okkur vegna þessa. Auðvitað getur verið misjafn sauður í mörgu fé sem ferðast á fölsuðu vegabréfi en í samningnum um réttarstöðu flóttamanna sem Ísland fullgilti árið 1952 er sérstaklega tilgreint að ef vafi leiki á ástæðu til flótta eða sannleiksgildi frásagna eigi hælisleitandinn að njóta vafans. Sú regla gildir ekki hér.

Að sama skapi hefur verið gagnrýnt að afgreiðsla mála þeirra sem óskað hafa hér hælis taki langan tíma. Átak var gert á síðasta ári til að Útlendingastofnun gæti hraðað afgreiðslu mála og hefur það borið árangur. Útlendingastofnun afgreiddi 183 mál á síðasta ári á móti 46 málum árið 2011 og 63 málum árið 2012. Það er fagnaðarefni.

Um áramótin síðustu var 131 hælisleitandi með mál sín til meðferðar og þar af leiðandi 55 hjá Útlendingastofnun. Mál hinna 76 voru annaðhvort í meðferð hjá innanríkisráðuneyti eða þeir biðu flutnings úr landi. Það er líka fagnaðarefni að lagt hefur verið fram sérstakt frumvarp um sérstaka úrskurðarnefnd í málefnum útlendinga og þar með hælisleitenda. Loks er fagnaðarefni að í innanríkisráðuneytinu hefur verið lögð áhersla á vinnu við þennan málaflokk og ítarlegs frumvarps er að vænta í febrúar að sögn hæstv. innanríkisráðherra. En góður og fagur ásetningur er ekki nóg ef á sama tíma er komið fram við hælisleitendur með þeim hætti að ekki sé hægt að kalla það annað en fantaskap.

Fyrri part desember mætti hæstv. innanríkisráðherra á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna þess máls sem nefnt hefur verið lekinn úr innanríkisráðuneytinu, en þá hafði tveim fréttamiðlum borist í tölvupósti nokkuð sem kallað var óformlegt minnisblað úr innanríkisráðuneytinu þar sem fram komu persónuupplýsingar um einstaklinga og alveg sérstaklega einn sem flytja átti úr landi samkvæmt úrskurði ráðuneytisins. Þegar nánar var skoðað kom í ljós að flest af því sem fram kom í þessu minnisblaði átti ekki við rök að styðjast, það voru ósannindi og þess vegna ærumeiðandi. En það skiptir engu máli. Það er höfuðatriði í málinu að þessar upplýsingar áttu ekki að fara frá ráðuneytinu um þetta fólk, hvort sem þær voru sannar eða ósannar.

Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sagðist hæstv. ráðherra hafa gert athugun í ráðuneytinu og ljóst væri að þetta minnisblað væri ekki þaðan. Enn fremur kom fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að margir hefðu þessar upplýsingar og þær gætu komið víðs vegar að.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða upplýsingum er almennt safnað um hælisleitendur og hverjir gera það? Hefur ráðherra látið fara fram athugun á því hverjir gætu hafa lekið minnisblaðinu eða komið því til þessara fréttamiðla í þessu tiltekna tilviki? Kom það frá einhverjum stofnunum sem heyra undir ráðherrann? Það væri ekki óeðlilegt, sýnist mér, að hún hefði látið athuga það enda alvarlegt að innanríkisráðuneytinu sé kennt um. Ef málið verður ekki upplýst munu stjórnvöld liggja undir grun um að reyna að kasta rýrð á hælisleitandann sem flytja átti úr landi, en miðað við aðstæður hans var það afar harkaleg aðgerð.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki bara alvarlegt mál fyrir ráðuneytið, þetta er alvarlegt mál fyrir okkur öll. Það er alvarlegt mál ef þeir sem hingað leita geta ekki treyst því að þeir sem bera ábyrgð fyrir okkur öll fara ekki að þeim reglum sem við viljum að gildi um okkur öll og líka þá sem koma hingað til lands, boðnir eða óboðnir.