143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

upplýsingar um hælisleitendur.

[15:54]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir þessa þörfu umræðu. Mér fannst hæstv. ráðherra svo sem ekki svara því sem hún hefur verið spurð um að undanförnu og vekur það töluverða athygli í þessu máli. Mér finnst hæstv. innanríkisráðherra verði að svara hvers vegna rekstrarfélag Stjórnarráðsins, sem sér almennt um skráningar á atvinnuleyfum og fasteignum, er látið athuga jafnalvarlegt mál ráðuneytisins og hér er til umfjöllunar. Með hvaða hætti fór sú athugun fram? Með ýmsum hætti segir hæstv. ráðherra, en það virðist alla vega ekki vera eðlilegt að Stjórnarráðið athugi sig sjálft að mínu viti.

Ráðuneytið og rekstrarfélagið hafa fullyrt að trúnaðargögn umrædds máls hafi einungis farið til þeirra sem rétt eiga á þeim. Hvernig má það vera að Morgunblaðið og fleiri segist hafa minnisblað um málið hjá sér? Telur ráðherra þá að fullyrðing Morgunblaðsins sé röng? Ef blaðið hefur undir höndum þetta minnisblað, hvernig stenst það á við þá fullyrðingu ráðuneytisins að það geti staðfest að trúnaðargögnin hafi einungis farið til þeirra sem rétt áttu á þeim? Hvers vegna hefur ráðuneytið þá ekki farið fram á leiðréttingu frá blaðinu? Hér er um trúverðugleika hæstv. ráðherra og ráðuneytis að ræða.

Það vaknar líka spurning um hvort algengt sé að ráðuneytið láti semja minnisblöð um tiltekna hælisleitendur og ástarmál þeirra, eins og hér virðist hafa verið gert, þar sem nafngreindir aðilar koma fram. Ekkert hefur komið fram enn þá sem bendir til þess, eins og hér var rakið í upphafi, að ávirðingarnar sem bornar eru á Tony eigi sér stoð í raunveruleikanum. Fullyrðingar úr minnisblaðinu hafa ratað í nígeríska fjölmiðla og hann óttast að þær verði notaðar gegn honum þar. Kemur til greina að endurskoða hælisumsókn hans á þeirri forsendu?

Lögmaður hans hefur líka staðfest að skjólstæðingur sinn hafi verið fluttur úr landi um miðja nótt án hans vitneskju. Er algengt að slíkt sé gert og eru það eðlileg vinnubrögð að mati ráðherrans? Og síðast en ekki síst, (Forseti hringir.) hafa þeir aðilar sem hér um ræðir, bæði Tony, Evelyn og íslenska stúlkan sem nafngreind voru, verið beðin afsökunar á trúnaðarbrestinum (Forseti hringir.) með formlegum hætti?