143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að draga umræðu um þetta mikilvæga verkefni inn í sali hins háa Alþingis. Í ljósi niðurlagsorða hv. málshefjanda þykir mér með ólíkindum að hann hafi ekki beitt atkvæði sínu og áhrifum á síðasta þingi til að ljúka þeim samningi sem ekki hefur verið efndur og var ekki efndur. Ég tel það eina af höfuðskyldum mínum sem ráðherra heilbrigðismála að tryggja hagkvæma og örugga sjúkraflutninga um allt land, enda eru þeir að mínu mati órjúfanlegur hluti af heilbrigðisþjónustu.

Eitt af fyrstu embættisverkum mínum sem heilbrigðisráðherra var að óska eftir viðræðum við stjórn SHS um gerð nýs samnings. Ég lét skoða þetta mál 30. maí, ef ég man rétt. Beiðni um samning hefur af stjórn slökkviliðsins ætíð verið vísað frá með þeim skýringum að fyrir liggi samningur milli velferðarráðuneytisins og stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og þá er átt við hinn svokallaða samkomulagsgrundvöll sem fulltrúar þáverandi heilbrigðisráðherra undirrituðu ásamt fulltrúum slökkviliðsins. Eins og margoft hefur verið ítrekað í þessari umræðu var sá samkomulagsgrundvöllur aldrei staðfestur, hvorki af þáverandi ráðherra né þáverandi ríkisstjórn og hvað þá að fyrir lægi einhver undirritaður samningur.

Það hefur verið og er einlægur vilji minn að semja við slökkviliðið um að halda samvinnunni áfram. Flest rök hníga í þá átt að það sé skynsamlegt að halda þessu samstarfi áfram, hvort heldur litið er til fjárhagslegra eða faglegra þátta.

Í bréfi til stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sveitarstjórna og stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn föstudag ítrekaði ég ósk mína um að ganga til samninga um sjúkraflutningana, en þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Almennt traust og ánægja er meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins með þá þjónustu sem SHS hefur veitt með sjúkraflutningum. Um það deilir enginn að mikilvægt er, jafnt fyrir íbúa og starfsmenn SHS, að eyða þeirri óvissu sem ríkir um fyrirkomulag sjúkraflutninga til framtíðar. Því ítrekar undirritaður einlægan vilja af hálfu velferðarráðuneytisins að ganga til samninga við stjórn SHS. En til þeirra samninga getur undirritaður ekki gengið með bundnar hendur af hálfu fyrri ríkisstjórnar og samkomulagsgrundvelli sem aldrei hefur verið staðfestur, hvorki af núverandi né fyrri ríkisstjórn, líkt og stjórn SHS hefur krafist.

Með vísan til framanritaðs er enn sett fram ósk til stjórnar SHS og nú einnig til sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu um að stjórn SHS eða fulltrúar hennar komi að gerð nýs samnings um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.“

Ég hef lýst því yfir að eðlilegt sé að ríkið greiði raunkostnað við sjúkraflutninga. Það þýðir að taki sveitarfélag að sér sjúkraflutninga sé eðlilegt og sanngjarnt að ríkið greiði þann kostnaðarauka sem viðkomandi sveitarfélag verður fyrir vegna sjúkraflutninganna. Þetta er sú meginregla sem á að gilda, hvort heldur samið er um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu, Ísafirði, Akureyri, Suðurnesjum eða í öðrum sveitarfélögum. Með öðrum orðum, þegar ríkið gengur til samninga á það að tryggja að allir, hvar svo sem þeir búa á landinu, sitji við sama borð.

Á árunum 2008–2012 var raunlækkun útgjalda heilbrigðisstofnana í eigu ríkisins 13–24%. Á sama tíma jukust raunframlög til sjúkraflutninga í samrekstri við slökkviliðsstarfsemi um 10%, en slíkur samrekstur er á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri.

Það er rétt að þingmenn hafi í huga að samkvæmt samkomulagsgrundvellinum hefði framlag ríkisins vegna sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu orðið um 38% hærri að raunverði á liðnu ári en árið 2008. Samkvæmt samningnum hefði kostnaðurinn orðið tvöfalt hærri að nafnverði árið 2016.

Finnst þingmönnum þetta eðlileg þróun? Eða er ekki rétt að hv. þingmenn geri kröfu til velferðarráðuneytisins um að það tryggi eins og kostur er að kostnaður vegna sjúkraflutninga fari ekki úr böndunum, að gríðarleg hækkun sé vel rökstudd og að baki sé ítarleg úttekt á því um hvað er samið?