143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að framtíðarskipan sjúkraflutninga er í uppnámi eftir að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur hafnað því samkomulagi sem náðist í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það samkomulag náðist eftir ítarlegar umræður og greiningar og vandséð er hvers vegna sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu að hefja þann feril allan að nýju þegar augljóslega er stefnt að niðurstöðu sem er þeim í óhag. Þrjár leiðir hafa verið nefndar varðandi framtíðarfyrirkomulag sjúkraflutninga; að halda óbreyttu fyrirkomulagi, bjóða reksturinn út til einkaaðila eða ríkið yfirtaki reksturinn alfarið og Landspítalinn muni sjá um starfsemina. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt að allar þessar þrjár leiðir séu til skoðunar en hann vilji helst að gerður verði samningur við slökkviliðið.

Að reka saman sjúkraflutninga og slökkvilið er hagur bæði ríkis og sveitarfélaganna. Sá hagur er augljós þegar bornar eru saman rekstrartölur þar sem sjúkraflutningar eru ekki reknir með brunavörnum og svo hinna. Þeir sem til þekkja fullyrða að ef sjúkraflutningarnir fara frá slökkviliðinu verði slökkviliðið lakara og sjúkraflutningarnir einnig.

Samningar um sjúkraflutninga eru lausir víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Brunavarnir Suðurnesja eru til dæmis með lausa samninga frá áramótum en sjá ekki fram á að niðurstaða náist í viðræðum við sjúkratryggingar á meðan deila ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er óleyst. Á meðan situr allt fast og óvissa er um framhaldið.

Sjúkraflutningar snúa að öryggi íbúa og þar með búsetuskilyrðum sveitarfélaga. Það er óviðunandi að með ráðherraskiptum sé slíkt hagsmunamál íbúa sett í uppnám. Krafan hlýtur að vera sú að samkomulag sem náðist eftir tveggja ára viðræður standi og að frá því verði gengið formlega.