143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til svara. Ég hefði þó kosið að heyra skýrari svör frá hæstv. ráðherra því hér er um að ræða stórmál, öryggismál fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins. Fyrir lá samkomulagsgrunnur. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra varð tíðrætt um fyrri ríkisstjórn og vísaði til hennar nokkrum sinnum í inngangserindi sínu. En staðreyndin er sú að hæstv. ráðherra hefur verið ráðherra síðan í maí. Þetta er mál sem þarf að leysa. Það þýðir ekki að standa og benda hér hver á annan. Þetta er mál sem þarf að leysa fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins því það er stórkostlegt öryggisatriði að þetta sé í lagi.

Við skulum ekki gleyma því að umfang sjúkraflutninga hefur aukist með stækkandi byggð og fjölgun fólks. Ég hef heyrt að hér fari fram 25 þúsund sjúkraflutningar á ári. Það er enginn smávegisrekstur. Það liggur líka fyrir að hagkvæmni þess að hafa óbreytt fyrirkomulag með því að sjúkraflutningar og slökkvilið fari saman er ótvíræð.

Hér var nefnt að fyrir lægju þrír kostir. Ég tel að óbreytta fyrirkomulagið sé sjálfvalið. Það er tvímælalaust óhagræði í því að ríkið taki þennan rekstur yfir og byggi í raun og veru upp nýtt fyrirkomulag, hvað þá að bjóða út til einkaaðila svona öryggismál sem ég get ekki betur heyrt en að sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu séu sammála um að eigi að vera í óbreyttum farvegi og eigi ekki að taka neina áhættu með.

Þannig að í stað þess að við ræðum fortíðina vil ég heyra hæstv. ráðherra lýsa því á eftir í sínu innleggi hvernig hann hyggist leysa málið og hvort til greina komi að vinna með samkomulagsgrunninn. Væntanlega hljóta aðilar að geta mæst á miðri leið. Ég veit að hæstv. ráðherra er mér sammála um að þetta er öryggismál sem skiptir ótrúlegan fjölda fólks miklu máli. Þetta þarf að leysa sem fyrst.