143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Margir þekkja þá angist og það óöryggi sem grípur fólk þegar vá ber að höndum ég tala nú ekki um ef það er eitthvað sem stendur okkur nærri. Slys eða önnur vá gera yfirleitt ekki boð á undan sér. Þegar það gerist höfum við öll væntingar og gerum kröfu til þess að viðbragðið sé öflugt og faglegt. Við setjum traust okkar á viðbragðsaðila. Það hefur tekist vel til á Íslandi. Það hefur tekist mjög vel til. Viðbragðsaðilar njóta mikils trausts í samfélaginu. Það sést best á þeim skoðanakönnunum sem eru gerðar um traust til aðila; lögreglan, slökkviliðið, björgunarsamtökin, Landhelgisgæslan, allir þessir viðbragðsaðilar skora mjög hátt. Það er ákaflega mikilvægt að samfélagið beri traust til þessara aðila.

Áratugasamrekstur í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu á slökkviliði og sjúkraflutningum hefur verið ákaflega farsæll, hefur leitt af sér mjög öflugt faglegt lið sem stenst allan samanburð við það sem best gerist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þetta þekkja allir sem hafa reynt þessa þjónustu, þeir ljúka lofsorði á hana. Ég get sjálfur vitnað um dæmi um það þegar sjúkraflutningamenn á höfuðborgarsvæðinu tóku á móti barnabarninu mínu í Kópavogi sem lá svo mikið á í heiminn, hvað manni leið vel að horfa á þau faglegu vinnubrögð sem þar áttu sér stað.

Þetta styrkir líka starfsemina á landsvísu. Þetta setur ákveðin viðmið fyrir landið allt. Sú faglega þekking sem hér hefur byggst upp smitar þannig út um allt land.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að efla öryggi borgaranna. Við sjáum það í auknum framlögum til löggæslu. Það má ekki rýra gæði þjónustunnar, en það gerist óhjákvæmilega ef hér verður aðskilnaður. Deilur sem þessar draga mátt úr starfsmönnum. (Forseti hringir.) Við verðum að finna langtímalausn. Svona deilur leiða hugann að því hvort samrekstur sem (Forseti hringir.) þessi sé ekki betur kominn á einni hendi, það sé annaðhvort á hendi sveitarfélaga eða ríkis að sjá (Forseti hringir.) um þennan rekstur í heild sinni. Ég held að (Forseti hringir.) frekar ætti að horfa til sveitarfélaga.