143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:43]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og þakka málshefjanda, hv. þm. Árna Sigurðssyni, kærlega fyrir að vekja máls á viðfangsefninu og ágæta yfirferð.

Sá sem hér stendur er mikill áhugamaður um samskipti. Við á Alþingi erum eftirlitsaðili þegar kemur að störfum ríkisins og því hvernig ríkið háttar sínum málum. Opinber rekstur er ekki bara einhver rekstur, málaflokkarnir sem opinber rekstur vasast í eru mjög mikilvæg mál í þjóðfélaginu og heilbrigðismál alveg sérstaklega. Þessi rekstur er opinber vegna þess að við viljum að honum sé mjög vel fyrir komið. Til þess hefur líka stjórnsýslan sérstakar reglur, sérstök lög um það hvernig farið er með þennan rekstur.

Mér finnst óþægilegt að því miður heyrir maður stundum á Alþingi það viðhorf að sveitarfélögin séu eins og einhver hagsmunaaðili úti í bæ. Sveitarfélögin eru hinn hlutinn af opinbera kerfinu hjá okkur, sveitarfélögin hafa með höndum upp undir 40% af opinberum rekstri á Íslandi. Samskipti ríkisins og sveitarfélaga verða að vera á almennilegum jafnréttisgrunni.

Hér er dæmi þar sem lífsnauðsynleg og mikilvæg þjónusta er komin í uppnám eftir að aðilar hafa verið í samræðum í þrjú ár. Því miður heyrist manni eins og verið sé að biðja um að fara aftur á byrjunarreit. Burt séð og fyrir utan vandann sem fyrir liggur (Forseti hringir.) finnst mér það ekki dæmi um góð samskipti.