143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[16:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sem hér hefur átt sér stað, utan þessa einu athugasemd sem gefur til kynna að ég hafi einhvern vilja til þess að fækka einhverjum tilteknum aldurshópum í þjóðfélaginu. Það er ekki svo. Mér finnst raunar með ólíkindum að það sé gefið til kynna úr þessum stóli.

Það er í sjálfu sér fátt nýtt sem hefur komið fram í umræðunni hér. Það er rétt sem hv. þm. Óttarr Proppé undirstrikaði að hér eigast við tvö stjórnvöld, og þetta er ekki ný saga, fremur gömul. Það ber að nálgast málið þannig. Það vill svo til að ég þekki mjög vel til samninga sveitarfélaga við ríkið, m.a. um sjúkraflutninga. Ég stóð í þeim sporum þegar ég var bæjarstjóri á Ísafirði og Akureyri líka, hef gert þetta oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég tel það sjálfsagt að fá tækifæri til þess að setjast við sameiginlegt borð með viðsemjanda í málaflokki sem ég tel mig þekkja bærilega vel og eiga við hann orðastað, fá fram yfir það sama borð rök með og móti því sem við setjum fram.

Það er einhver ástæða fyrir því að þetta mál hefur ekki náð lengra en orðið er þrátt fyrir þennan svokallaða samkomulagsgrundvöll sem varð til um 1. febrúar. Það eru einhverjar ástæður fyrir því og ekki bara það að ráðherra, hvort heldur hann ber nafnið Guðbjartur eða Kristján Þór, vilji ekki gera þetta, það eru miklu fleiri þættir en það.

Ég ítreka vilja minn til samninga. Ég hvet stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til þess að svara því erindi sem henni barst í hendur á föstudaginn síðasta þar sem ég vil að menn setjist niður við sameiginlegt borð, nái sáttum og tryggi framgang þessa mikilvæga málaflokks.