143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

veðurfarsrannsóknir og markáætlun.

180. mál
[17:02]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get svo sem tekið undir flest eða allt í mati hv. þingmanns. Ég held að æskilegt sé að skilgreina hvaða verkefni eru þjóðhagslega mikilvægust eða varða okkur sérstaklega, þar sem við erum stödd hér í heiminum, og eðli samfélags okkar. Það er liður í því sem Vísinda- og tækniráð er að gera í yfirferð sinni. Ég tek reyndar sérstaklega undir það sem hv. þingmaður spyr um, það er nátengt norðurslóðamálum, raunar hluti af norðurslóðamálum. Þar af leiðandi er alveg eðlilegt að við, Íslendingar, sem erum núna að huga sérstaklega að þeim málaflokki og ný ríkisstjórn leggur á það mikla áherslu, hugum að rannsóknum sem því tengjast um leið.

Það er að ýmsu að hyggja og eitt af því sem er alltaf nefnt sem mikilvægt atriði í undirbúningi þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað á norðurslóðum eru umhverfismálin, að koma í veg fyrir að breytingarnar leiði til óæskilegrar þróunar í umhverfismálum umfram það sem óhjákvæmilega fylgir, t.d. aukinni skipaumferð. Ég get því ekki annað en tekið undir mat hv. þingmanns.

Af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega markáætlanir og öndvegissetur og klasa er slík markáætlun í gildi núna, þriðja markáætlunin sem ráðist hefur verið í frá 2001, þ.e. markáætlun 2009–2015 um öndvegissetur og klasa. Framkvæmt var mat á stöðu verkefna árið 2011 af hópi erlendra sérfræðinga og öll verkefnin fengu að halda áfram og eru enn í gangi en eitt verður skoðað nánar á þessu ári vegna athugasemda frá árinu 2011. Svoleiðis að markáætlun varðandi öndvegissetur og klasa hefur gengið held ég ágætlega og bara prýðilega.