143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

vernd afhjúpenda.

264. mál
[17:08]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Því er til að svara að ég hyggst leggja fram á næstu vikum frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, eins og kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 143. löggjafarþing og endurskoðaðri áætlun um framlagningu þingmála frá upphafi vetrarþings núna.

Drög að frumvarpinu voru kynnt á vef ráðuneytisins í nóvember síðastliðnum og send helstu hagsmunaaðilum. Verið er að vinna úr umsögnum sem bárust. Frumvarpið var samið í kjölfar ábendingar frá stýrihópi sem skipaður var til að fylgja eftir ályktun Alþingis, sem hv. þingmaður gat um, frá 16. júní 2010 þar sem samþykkt var að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Meðal annars yrði leitað leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi, auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda yrði tryggð.

Í íslenskum stjórnsýslurétti eru þagnarskylduákvæði bæði mörg og matskennd sem veldur því að beiting þeirra er flókin og hætt við því að réttarframkvæmd sé hvorki samræmd né fyrirsjáanleg. Með frumvarpinu er lagt til að settar verði mun skýrari reglur þar sem afmarkað verði nánar inntak þagnarskyldu opinberra starfsmanna og hvaða hagsmuni þagnarskyldunni er ætlað að tryggja.

Í frumvarpsdrögunum er meðal annars ákvæði þess efnis að í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga sé eingöngu heimilt að ákveða að upplýsingar lúti þagnarskyldu sé það nauðsynlegt til verndar ákveðnum opinberum eða einkahagsmunum sem taldir verða upp með tæmandi hætti í ákvæðinu. Undir þagnarskyldu falli ekki upplýsingar um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda. Það þýðir að ekki verður hægt að refsa þeim sem koma á framfæri við þar til bæra aðila upplýsingum um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda. Þar með verður tryggt að svokallaðir afhjúpendur muni njóta aukinnar lagalegrar verndar.