143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

vernd afhjúpenda.

264. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið og fagna því að von sé á þessu frumvarpi á næstu vikum. Skil ég þá hæstv. forsætisráðherra rétt þannig að hann telji að með þessu frumvarpi sé með fullnægjandi hætti tryggð vernd afhjúpenda eða telur hann að þar þurfi að fara í frekari lagasmíð? Ég vitna þá til þess sem ég sagði áðan um að annars vegar erum við að tala um vernd afhjúpenda hjá hinu opinbera, sem væntanlega getur snúið að stjórnsýslulögunum, en hins vegar auðvitað vernd afhjúpenda á einkamarkaði? Við höfum dæmi um það í samfélaginu þegar mál hafa verið upplýst. Skemmst er þar að minnast landssímamálsins.

Spurningin er eiginlega hvort hæstv. forsætisráðherra sjái fyrir sér að vernd afhjúpenda verði sérstaklega tryggð hjá hinu opinbera með því frumvarpi sem hann hyggst leggja fram eða hvort þar bíði frekari vinna og heildstæð löggjöf um vernd afhjúpenda óháð hvar þeir eru starfandi.