143. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2014.

Hús íslenskra fræða.

174. mál
[17:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir fyrirspurnina.

Hvað varðar þann hluta kostnaðarins sem til er fallinn og nú þegar er orðinn er rétt að hafa í huga þegar kemur að ákvörðun um hvort ráðast skuli í framkvæmdina að þar er að nokkru leyti um að ræða sokkinn kostnað, svo notað sé orðfæri hagfræðinnar, sem kannski á við þegar um er að ræða svona gríðarlega stóra holu sem þarna er. Það eitt og sér mun því ekki ráða ákvörðun um að ráðast í húsið, í það minnsta ekki sá kostnaður. En það er alveg rétt að það kostar að fylla upp í þá holu og rétt er að horfa til þess. En aðalatriðið er, og um það erum við hv. þingmaður sammála, að það hlýtur að vera metnaðarmál fyrir okkur Íslendinga að húsið rísi og við getum þar með sinnt skyldu okkar við menningararfinn með sæmilegum hætti. Ég tel að allur undirbúningur þessa máls sé ágætur.

Því miður var sú staða uppi við gerð síðustu fjárlaga, þó að margir hv. þingmenn hefðu svo gjarnan viljað að hægt hefði verið að ráðast í þessa framkvæmd, að þá stóð það einfaldlega þannig af sér að þau sjónarmið sem ég lýsti í upphafi umræðunnar um annars vegar jöfnuð í ríkisfjármálum og hins vegar áhersluatriði ríkisstjórnarinnar hvað varðaði uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu voru í forgangi og um það var góð samstaða. Það breytir ekki því að þetta verkefni bíður okkar og ég vonast til þess að á næstu missirum muni þannig rætast úr að við eigum kost á því að ráðast í verkefnið. Ég held að það sé mikilvægt og ég er sannfærður um að góður og þverpólitískur stuðningur er við slíkt.